föstudagur, október 31, 2008

Raunir 69

Það verður nú bara að segjast
að það er aldrei auðvelt að hefja sambúð
eða samband
þegar þú ert kominn á miðjan aldur.......
Reyndar held ég að það sé aldrei auðvelt,
en það verður ekki auðveldara með auknum kröfum og þroska
( ásamt vana, þrjóskuröskun og fastheldnum einbúahætti)

Þó hefur aumingjans útlendingurinn átt óvenju erfitt uppdráttar.

Honum var jú skellt beint inn í banalegu föður míns
og síðar fráfalls,
með öllu sem því fylgir -
tilfinningalegum rússibana, skapsveiflum og þreytu,
ásamt 100 praktískum atriðum sem eru flókin fyrir nýkynntan manninn.
Í kjölfarið fylgja aðrar sveiflur sem tengjast öðru fráfalli,
skítlegu veðri, roki rigningu og óvenjulegum kulda
og svo er klikkt út með efnahagslengu hruni landsins.

Maðurinn fær hvergi vinnu
og er nánast hlegið að honum þegar hann spyr.
Bæturnar sem hann fær frá sínu ríki
eru að engu orðnar þegar búið er að skipta þeim upp í krónur
á gengi sem á sér enga stoð í raunveruleikanum,
en eru reiknaðar út af einhverjum jakkafötum í Brussel.

Nú er svo komið að við sjáum ekki fram á annað
en að hann haldi aftur heim
og reyni að koma sér í vinnu þar
hýmandi einn í herbergiskytru
þar sem að íbúðina sína leigði hann fram í febrúar.
Ég get ekki hugsað mér að segja upp minni vinnu núna
sem ég þó hef (ennþá)
vitandi ekkert um framhaldið og hvort eitthvað annað býðst úti
og því er þetta ákveðinn skilnaður
með hugsuninni "að sjá til hvað gerist."

Helst vildi ég bara stinga af með honum
burt frá þessari prumpuholu,
en það er ekki mjög praktískt
og frekar vitlaust eins og staðan er núna.
Þetta hefur allt saman tekið á sambandið
og ekkert af því er jákvætt fyrir rómantík
eða glænýja ást og samskipti yfir höfuð.

En svona er víst andsk...... ástandið
og lítið sem hægt er að gera í því
annað en að reyna að vera hugrakkur
og brosa.

Áttaði mig líka á einu í dag.
Unglingurinn verður 18 ára á morgun - 1. nóvember.
Þá fellur niður meðlag frá föður
og barnabætur sem áttu að greiðast 01.11
verða ekki heldur greiddar.

Gaman að fagna þessum áfanga ungpíunnar
í miðri kreppu og vesöld.
Á ekki einu sinni fyrir afmælisgjöf.
(jú ef það er eitthvað fyrir 5000 kall
sénsinn að það slái í gegn!)

Ó ég er svo skemmtileg núna.

fimmtudagur, október 30, 2008

Raunir 67

Alltaf færri og færri aðstæður til að hanga á þessu skeri.
Nú þarft maður líka að hætta að drekka rauðvín,
ofaní að hætta að reykja.

Verst að maður var líka hættur að éta
og ****.

Það er andskotann ekkert að hafa hérna
nema fýlu og leiðindi.
Allir hundpirraðir og blankir.

Myrkrið á leiðinni - big time
alltaf kólnar meira og meira
og bráðum verður ekkert í boði nema RÚV til skemmtunar.

Gleðileg jól.

miðvikudagur, október 29, 2008

Raunir 66


Þetta fannst mér athygli vert:

After your treatment

When you have had the Epley manoeuvre treatment there are things you can do to help the “ear crystals “ stay where they have been repositioned.

  • Don’t drive yourself home
  • Sleep semi-recumbent for the next two nights prop yourself up in bed so you are in relaxed sitting position with your head well supported
  • During the day try to keep your head vertical
  • Don’t bend down to pick anything up
  • Do not tilt your head up either.
  • Don’t do any strenuous exercises which involve head movements for the next week

Man ekki betur en að ég hafi keyrt beint í vinnuna eftir að búið var að kukla í mér, tekið til í íbúðinni að því loknu og sofið á minni hægri hlið eins og vanalega, þannig að ég fór ekki eftir einni einustu leiðbeiningu sem hér var gefin.....................enda gleymdist alveg að tjá mér þessi atriði á læknastofunni.

Kannski ekkert skrítið að þetta virðist aldrei lagast?

Ég er samt enn að reyna að finna út hvenær ég varð fyrir höfuðáverkum eða hálsmeiðslum, sem ku vera aðalástæðurnar fyrir þessu ástandi. Kannski er þolfimi bara ávísun á háls og höfuðmeiðsli, þar sem ég hef verið að drepast í háls og öxl í yfir ár núna?

Raunir 65

Er föst í hálsi og öxl.
Kristallar í eyrum komnir eina ferðina enn á flakk,
með tilheyrandi svima og sjóriðu.
Uppferðir og niðurferðir stundaðar grimmt í vatnsskápnum.
Hausverkur fyrir allan peninginn,
ásamt léttri hitavellu og verk bakvið augun.

Held ég sé bara lasin.
Hef beðið um að vera leyst undan fjórða tímanum í dag.
Sit nú bara og vona.

þriðjudagur, október 28, 2008

Raunir 64

Þá er það yfirstaðið.
Gamla búin að debútera.

Gekk svona ágætlega miðað við allt.
Fullt af fólki á svæðinu (70 manns),
sem gerði mig meira en lítið stressaða,
en flestallir voru nú vinveittir og/eða vinalegir.

Var sein á staðinn
og byrjaði því seinna en áætlað var,
vegna þess eins að ég þurfti að vinna
lengur en ég hafði gert ráð fyrir.

Taugarnar róuðust ekkert eftir því sem leið á prógrammið
og kom mér það mikið á óvart.
Greinilegt að langt er liðið frá síðustu framkomu opinberlega.
Venjulega tók það 1 til 2 lög að komast á ról.
Núna slakaði ég ekki fyrr en allt var búið.

Ég er þó farin að anda eðlilega
þó svo ég finni ekki ennþá þindina mína
en ég týndi henni um níu leytið í gærkveldi.
Finnandi skili henni vinsamlegast í Hlíðarbyggðina.

En takk allir sem komu,
vona að þetta hafi bara verið kósý
þrátt fyrir byrjendabrag

Kossar

mánudagur, október 27, 2008

Raunir 63

Það væri helber lygi
að halda því fram
að það sé ekki ákveðin oföndun
og ofvirkni í meltingarfærum
í gangi núna.

Nóttin var heldur óvær
og á 5 mínútna fresti
langar mig að bresta í grát.

Það er líka ekki á hverjum degi
sem 41 árs gömul keddling
stígur í fyrsta sinn á stokk sem söngvari.

En í kvöld mun það víst verða að raunveruleika.

Tónleikar hefjast klukkan 21:00
á Café Rósenberg - Klapparstíg 25 - frítt inn
þ.e. - ef ég fæ einhvern til að leysa mig af í sprikli
en það gengur eitthvað illa.

Ef það tekst ekki mun ég mæta lafmóð og nýskúruð
2 mínútur í frumsýningu - sem þýðir örlll....seinkun
en tel ég það ekki kunna góðri lukku að stýra.
oh well................
þá hef ég a.m.k. ekki tíma til að stressa mig
fram á síðustu stundu.

En endilega komið
og styðjið mig andlega
en ekki gera kröfur um eitthvað stórkostlegt af minni hálfu
geri bara mitt besta........
og REYNI að hafa gaman að því.

Þetta verður allt í lagi - ehaggi? :-)

föstudagur, október 24, 2008

Raunir 62

Jæja...........
Geiri sagði þó a.m.k. að það kæmi að því
að við mættum fara að skamma fólk
og láta það gjalda fyrir sukkið.

Mér finnst blórabögglar þó ekki rétta orðið.
Glæpamenn er miklu nær því.

En.............ég er ekki alveg að kaupa allt sem þau sögðu.

IMF daninn var ansi stressaður
en ég var líka ekki alveg að fíla hans framtíðarsýn
þó svo mér sýnist að hún sé sannari en þær sem hafa heyrst hingað til.
Við erum í skítamálum
OG ÞAÐ ER EKKI MÉR AÐ KENNA!!
En ég þarf víst að vera góð
því að "við" þurfum að standa saman
eftir sukkið "okkar" yeah right............

BULL! Segi ég og skrifa.

Raunir 61

Fúl, reið, pirruð..............
Tekur því ekki að skrifa um það

þriðjudagur, október 21, 2008

Raunir 60

Heilt ár í dag.
Er það ekki merkilegt
hvað tíminn líður hratt?

Mín tilfinning er ekki sú
að nú sé heilt ár liðið,
enda líður ekki sá dagur
að ég hugsa ekki til hans
eða um hann.

En lífið heldur víst áfram
og á þessu ári hefur margt dunið yfir
og ýmislegt gerst.

Það kennir mér að allt líður hjá,
einnig að allt tekur enda
og að lífið er stutt.

En ég sakna hans endalaust.

Munum eftir náunganum þegar við ferðumst gegnum lífið.
Eitt bros getur dimmu í dagsljós breitt
og aðgát skal höfð í nærveru sálar.

Gefum af okkur og gefum fólkinu í kringum okkur tíma.
Örlítil hlýja, falleg orð, klapp á bakið,
geta skipt sköpum
þegar sálin er í darraðadansi myrkursins
og ekkert virðist bjart framundan.

Faðmaðu fólkið þitt í dag
og segðu þeim að þér þyki vænt um það.
Það kostar ekki neitt,
en getur verið ótrúlega dýrmætt.

mánudagur, október 20, 2008

Raunir 59

Alltaf er ég svo vibbalega ókúl eitthvað.
Var að reyna að setja þessa tvo linka inn
eins og alvöru tölvufólk gerir -
en það er bara ekki að virka.

Set því þessar grúppur inn hér svona:

http://www.facebook.com/group.php?gid=31729447882
http://www.facebook.com/event.php?eid=30990321682

og fer svo inn til mín að skammast mín.

En............ endilega kíkið - og það væri gaman að sjá ykkur.
Best að fara að æfa sig...................

sunnudagur, október 19, 2008

Raunir 58

Það á að banna fólki
að nota landa í afmælisbollur.
En allt er víst áfengi í kreppu.

Ó mig auma..................

föstudagur, október 17, 2008

Raunir 57

Fór í löngu tímabært og í raun langþráð nudd í gær.
Nuddsnillingurinn var sambloggari og ljóðskáld
og ég lýg því ekki - þetta var besta nudd sem ég hef fengið.
Að auki verslaði ég svo stórgóða ljóðabók að glugga í.
En............

Konan er fædd í verkið
enda með eindæmum ljúf og gefandi manneskja
með sterkar, vandvirkar og góðar hendur
og hún er ein af þeim sem gerir allt vel.

Það er mikill munur á skrokknum eftir þessa meðferð
en ég ætla þó að hitta hana aftur..............og vonandi aftur.
Skil bara ekki hversvegna ég hef ekki gert þetta fyrr.
Sendi henni koss hér með.

Annars er búið að kreppast svolítið hér á bæ.
Ekki það að við séum búin að tapa nokkrum milljónum,
en - útlendingurinn fær greiðslur frá Danmörku
sem eru reiknaðar á genginu 15 (why???)
og þarf svo að senda pening - fenginn á því gengi
aftur til Danmerkur til að greiða aðrar skuldir.
Great!
Það þýðir einfaldlega ansi mikið tap og erum við létt pirruð
því ekki vorum við rík fyrir.
Erum samt fegin að hann leigði ekki Íslendingi (!!)

Ég er búin að stilla yfir á "ég er atvinnulaus" stýrikerfið
og ét nú bara hrísgrjón, baunir og núðlusúpu.
Tekst samt ekki að hætta að reykja.
Er nú blankari en þegar ég var einstæð
sem er skrítið -
en segir margt um það nunnulíf sem ég hef lifað undanfarin ár.

Þurfti að leiðrétta nokkrar konur sem voru að kætast
yfir kvenmanns bankastjórunum öllum saman.
Auðvitað er kallað í konur þegar þrífa á upp skít
og enginn heilvita maður
tæki að sér þetta óþrifaverk
fyrir meira en helming þeirra launa sem áður voru í boði.
Svo auðvitað ef allt klúðrast
er hægt að kenna keddlingunum um allt saman - aftur.

Mér finnst annars allt þetta fjármálatal leiðinlegt
og það gerir mig bara pirraða og leiða
enda skil ég ekki helminginn
og svo var ég ekki með nein hlutabréf eða sjóði.
Skilst þó að mamma greyið, nýorðin ekkja
sé ekki í eins góðum málum og pabbi litli hafði gert ráð fyrir.
Þannig að allt bitnar þetta nú á endanum á gamla fólkinu
og mér og þér.
Venjulega fólkinu, sem þarf nú að skera enn meira niður
í brýnustu nauðsynjum
( já- ég veit - ég reyki......enginn er fullkominn)
og borga yfirvexti á "trabant" bílunum sínum og tryggingum.

Vildi stundum að ég hefði bara tekið þátt í svallinu.
Þá hefði í það minnsta verið gaman á meðan
og að verður víst enginn skammaður fyrir þetta hvort eð er.
Oh well - den tid den sorg.

Er annars að fara að verða mér til minnkunar þ. 27.október.
Mun hefja upp raust mína á café Rósenberg með útlendingnum
sem hefur samið svona líka mikið af ljúfum lögum.
Komið endilega og híið.
Frítt inn - en styrkir vel þegnir í þartilgerðan hattræfil.
Ég verð þessi með sólgleraugun og húfuna
sem getur ekki sungið rass.

Yfir og út.

mánudagur, október 13, 2008

Raunir 56

Í nótt sem leið fór ég í viðburðaríka ferð í gegnum fylgsni huga míns og skoðaði í raun allt líf mitt frá því ég man eftir mér til dagsins í dag. Þetta var athyglisvert ferðalag, þó svo það hafi farið fram að einhverju leiti á milli svefns og vöku og þar af leiðandi kryddað með ýmsum minningum og upplifunum sem ekki eru í raun mínar, en ég komst þó að því að ég hef komið víða við í mínu lífi, upplifað margt og afrekað meira en ég hef gert mér grein fyrir hingað til. Ekki veit ég nákvæmlega hvað kveikti á þessari endurskoðun á lífi mínu, en þó hlýtur það að vera að einhverju leiti sambland af áföllum síðustu ára, ástandi þjóðmála og þeirrar óvissu sem nú ríkir og svo staðreyndinni að ég upplifi sjálfa mig á krossgötum bæði hvað varðar tilfinninga og atvinnulíf mitt. Ég veit ekki hvert ég stefni eða hvað ég í raun vil í lífinu, en ég veit að ég þarf að fara að ákveða mig og setja fókus á eitthvað sem mig langar að gera og verða. Enginn lifir að eilífu og lífið er stutt. Á þessari ferð minni varð mér enn betur ljóst hversu illa ég hef ræktað þá hæfileika sem mér voru gefnir í vöggugjöf og oft á þeim grundvelli að eitthvað var of auðvelt og því ekki þess virði að stunda það af einhverri alvöru. Það var ekki nógu mikil áskorun í því. Einnig hefur sú upplifun mín sem ég hef geymt í prívathólfum huga míns, að ég sé alltaf að feika allt og draga stöff út úr rassgatinu á mér, einfaldlega vegna þess að það var mér svo auðvelt að vinna verkið, skemmt fyrir mér, í stað þess að ég gerði mér grein fyrir að það var mér svona auðvelt, vegna þess að ég var góð í því sem ég var að gera. Sumir eru bara góðir í einhverju einu og ég tel að það sé á margan hátt betri kostur, þar sem að hitt býður upp á endalaust val og tilheyrandi valkvíða ( þ.e. að vera góður í mörgu) og á endanum er allt sem þú gerir miðlungs, vegna þess að þú setur ekki alla þína krafta í þetta eina - heldur ert að dreifa þeim yfir á marga hluti og á endanum verður þú kærulaus. Það vill verða til þess að þú byrjar á mörgu, en klárar fátt, einnig vegna þess að þú sættir þig ekki við annað en fullkomna niðurstöðu, þar sem það er sú krafa sem þú gerir á þig. Ef þú sérð fram á niðurstöðu sem ekki er fullkomin, er betra að ganga burt frá ókláruðu verki heldur en ljúka því á einhverju miðlungs plani, sem svo n.b. er þín sýn á hvað er miðlungs og þín sín á hvað er fullkomið. Öðrum gæti þótt útkoman til fyrirmyndar að öllu leiti, en tilfinningin um að þú hafir á einhvern hátt svikist um, leyfir þér að hugsa sem svo að þú hafir krullað þessu saman og það geti því ekki verið gott, þar sem það var svo auðvelt. Svona getur maður verið ruglaður og flókinn í slæmum félagsskap með sjálfum sér.
En þessi nótt leiddi mig í gegnum lífið, líkt og ég væri drukknandi manneskja og bíómyndin sem rúllaði í gegnum hugann kom mér í raun um margt á óvart, því mörgu hef ég ómeðvitað gleymt - en hef þó að því er virðist geymt.
Ég hef gert ótalmargt í lífinu og ég tekist margt á hendur hvort heldur í vinnu eða prívatlífinu. Margt hef ég gert mjög vel, annað ekki, en einnig hef ég gengið í gegnum ýmiskonar mótlæti og komist í gegnum það heil, öllum og ekki síst mér til mikillar furðu. Virðist sem ég sé gerð úr einhverju efni sem einungis bognar en brotnar ekki þegar á móti blæs og er ég því líklegast mun sterkari en ég tel mig vera. Þetta hefur þó allt saman mótað mig og gert mig að þeirri manneskju sem ég er með mínum kostum og göllum.
En núna er komið að kaflaskilum. Ég finn hjá mér mikla þörf til að koma í verk því sem ég hef hug á að áorka í lífinu. Setja mitt mark á heiminn. Vera allt það sem ég hef möguleika á að vera.
Mig langar að njóta lífsins, upplifa það og vera með í partýinu.
Stundum þurfum við manneskjurnar að staldra við og líta yfir farinn veg. Læra að meta það sem við erum og höfum og þakka fyrir þær gjafir sem okkur voru gefnar í stað þess að telja okkur trú um að við höfum ekkert gert af viti í lífinu og séum hvergi stödd - taka svo þessa reynslu okkar og nýta hana til þess að ná stærri markmiðum í lífinu og komast þangað sem hugurinn leitar.
Gott er þó að vita hvert hann leitar áður en ferðin er hafin, en vera þó opinn fyrir því að ferðatilhögun gæti breyst eftir því sem líður á ferlið.
Nú ætla ég því að pota aðeins meira í naflann á mér og leitast við að fá botn í málið.
Eigið góðar stundir.

laugardagur, október 11, 2008

Raunir 55

Í spriklvinnunni í morgun
spjallaði ég við nokkrar konur
sem starfa sem almennir starfsmenn í banka.
Þessar konur voru þrátt fyrir ástandið léttar í lund,
sem er aðdáunarvert
því þær höfðu ótrúlegar sögur að segja.

Nú er ég, sem almennur borgari
og ég leyfi mér að segja - verkalýður -
meira en lítið hissa á framferði fólks
(allrahanda viðskiptavina)
sem hafa gert sér ferð í bankana undanfarna daga.

Reiði mín vegna þeirra atburða sem hafa átt sér stað
hefur nefnilega að sjálfsögðu beinst að fjárglæframönnum
og ráðamönnum bankanna og Seðlabanka,
sem stunduðu vítavert kæruleysis og skítlegt eðli
í umgengni við fjármuni þjóðarinnar,
en aldrei myndi mér detta í hug
að kenna gjaldkerum og þjónustufulltrúum bankanna
um hamfarirnar sem nú dynja á okkur.

Það gerir hins vegar ógrynni af fólki.

Það gerir sér lítið fyrir
og hellir sér yfir hinn almenna starfsmann
og eys yfir hann óhróðri og skömmum
með tilheyrandi blótsyrðum og viðbjóði.

Mér finnst þetta með ólíkyndum.
Er fólk virkilega svona illa gefið?
Því miður virðist svo vera.

Verst er að þetta er sama fólkið og skammar kassastarfsmenn
fyrir hátt verðlag í verslunum.

Þessir aumingjans starfsmenn sjá margir fram á að missa vinnuna
hafa flestir tapað sparifé sem það fjárfesti í vinnustað sínum
og býr við jafnmikla - ef ekki stundum meiri óvissu en við hin.

Ég segi bara skamm.
Svona gerir maður ekki.

fimmtudagur, október 09, 2008

Raunir 54


Litla Hunangsflugan hennar mömmu sinnar.

þriðjudagur, október 07, 2008

Raunir 53

Thratt fyrir toffaraskap
og spraekan kjaft.
Tha neita skrokkurinn
og andinn
ad vidurkenna ad allt se i lagi.

Er threyttari en eg helt mogulegt
og gaeti sofid i heila old.
Svo er eg lika farin ad skrifa a utlensku.

Hvar endar thetta?

mánudagur, október 06, 2008

Raunir 52

Er fólk í alvörunni að láta það út úr sér í fjölmiðlum
að við séum að sigla inn í heimstyrjöld -
með kjarnorkuvopnum???

Hvað er að fólki?!

Getur liðið ekki reynt að hemja sig
og ætti það ekki að leitast við að róa fólkið í landinu,
í stað þess að hræða úr því líftóruna?

Andskotans æsifréttamennska er þetta.
Er ekki nóg samt?

En fokk.
Ég hélt að ég gæti loksins farið að slappa af,
en nú þarf ég líklegast að afþýða frystinn
og versla slátur í massavís.
Klessa svo bílinn
þar sem ég fæ ekki að skila honum........

Samt...........
mikið er ég glöð að ég er fáviti í peningamálum,
annars hefði ég endurfjármagnað á sínum tíma
og væri núna að missa íbúðarræfilinn.
Einnig á ég engin hlutabréf
og ekki krónu inni á bók.
Lífeyrinn minn er í Allianz.

Stundum er gott að vera vitleysingur.

Allir að muna að anda inn og út.

sunnudagur, október 05, 2008

Raunir 51

Langar að leggja inn beiðni um sjö daga helgi
ásamt nokkrum nuddtímum
heitum potti
og hágæða amerísku rúmi.

Ekki væri verra ef fylgdi með
eins og eitt stykki hvít strönd
með tilheyrandi sól og sumaryl.

Hendi þessu hér með út í kosmosið
og ulla um leið framan í kreppuna.

Nú er að sjá hversu mikil áhrif ég hef í henni veröld.

föstudagur, október 03, 2008

Raunir 50

Þá er það afstaðið.
Önnur jarðaförin á innan við ári
og verður að játast að það tekur hressilega á.
Ætla rétt að vona að langt verði í þá næstu.

Ég er þó enn sannfærðari núna
um að ég vilji ekki hefðbundna jarðarför þegar ég fer
með öllu því skipulagi, útgjöldum og eilífðarsnatti
sem þeim fylgir - og vottast það hér með
að allar þær óskir hafa verið skrifaðar í bók
og skal farið eftir þeim.

Pabba tókst að sjálfsögðu að gera at í okkur
eins og honum einum var lagið
en systir mín var nærri búin að henda honum úr kistunni
í miðri kistulagningu.
Það var ekki hægt annað en að skella upp úr,
þ.e. eftir að hjartsláttinn lægði
og andadrátturinn varð reglulegur.
Ég sá fyrir mér glottið á þeim gamla.

Organistinn frægi skeit upp á bak með tilþrifum
og ruglaðist endalaust - (vanur maðurinn!)
en kórinn var dásamlegur
og langaði mig stundum hreinlega að klappa fyrir þeim.
Hjörleifur fiðlumann var einnig yndislegur.

Presturinn var helst til Jesúaður fyrir minn smekk
og vitnaði endalaust í bibblíuna og dauða kaddla
en - þetta fílar eldra fólkið víst í botn.

Þetta var hátíðlegt og fallegt í heildina
og kirkjan mikið meira en þéttsetin.
Hann var víst nokkuð vinsæll og vel metinn kaddlinn.

Ég á þó erfitt með að skilja eitt (reyndar margt) í fyrirkomulaginu
og vona að því verði breytt til hins betra.

Þegar búið er að ganga á eftir kistunni út kirkjugólfið
og fylla skottið
liggur bílstjóranum einhver ósköp á að bruna í burtu.

Það þýðir að aðstandendur þurfa að ryðjast með látum
í gegnum gestaþvöguna
til að komast í fatahengið og ná í yfirhafnir.
Svo þarf að berja af sér fólk sem vill sína samhug og hlýju
til að geta hlaupið út á bílastæði og upp í bíl
og ná að fylgja kistunni upp í garð.
Ansi kjánalegt allt saman .

Fyrir vikið var haugur af fólki sem náðist ekki að heilsa
þar sem ekki allir mæta í erfidrykkjur.
(Það partý finnst mér alltaf frekar leim
og því verður ekta Irish Wake þegar ég kveð jarðlífið)
En þetta er galli og ætti að gefa fólki smá tíma utan við kirkjuna.

Kyssti fullt af fólki sem ég þekki ekki neitt
og hafði varla tíma til að anda, spjalla eða nærast
vegna kossaflens.

Líður í dag eins og ég hafi verið í Marþonhlaupi
þreytt, lúin og aum í skrokk.
En lífið heldur áfram.