sunnudagur, ágúst 31, 2008

Raunir 41

Það er eitthvað svo ljómandi dásamlegt
að vakna inn í bjartan og fagran morgun
og mjög svo ólíkt því
að rumskast inn í grámyglu og vætu undanfarinna daga.

Fórum á músíkhátíð í gærdag
og sátum fram á kvöld.
Yndisleg skemmtun
en þarna voru saman komnir
íslenskir og erlendir "trúbadorar"
sem spiluðu og sungu frumsamið efni.

Staðurinn nýopnaður "Café Rosenberg"
sem nú hefur verið endurvakinn
á Klappastígnum (neðan við Laugarveginn).
Vinalegur staður og hentar vel fyrir músíkflutning.
Vona bara að hann nái að blómstra og dafna,
þetta er einmitt það sem hefur vantað.

Í dag heldur svo hátíðin áfram
og aldrei að vita nema maður kíki aftur.

Skruppum í mat á Santa Maria
mexíkóskan veitingastað við hliðina á 22
en þar virðist mexíkósk fjölskylda
vera búin að koma sér upp góðum bissness.
brjálað að gera -
maturinn fínn, vel útilátinn og ódýr.
Eitthvað virtist þó yngsti bróðirinn vera ósáttur
og maður sá óþekktina skína úr andlitinu á honum
(hefur eflaust verið þvingaður upp á skerið af mömmu gömlu).

Því næst var haldið heim.
Þar sáum við sjálf um tónlistarflutninginn
en "útlendingurinn" hefur ekki enn gefist upp á
að reyna að koma mér yfir söngfeimnina.
Ryður hann frá sér hverju frumsamda laginu eftir annað
og pínir mig til að syngja.
Það er gaman -
en mikið fjandi getur maður verið asnalega feiminn stundum.

mánudagur, ágúst 25, 2008

Raunir 40

Af einhverjum undarlegum ástæðum
virðast viðburðir menningardags/nætur
hafa farið fyrir ofan garð og neðan hjá mér.
Ég sá í hið minnsta ekki helminginn
af þeim stórmerkilegu og sniðugu viðburðum
sem að í boði virðast hafa verið
og aðrir séð.

Ég var að sjálfsögðu mjög meðvituð
um að draga ekki "útlendinginn"
inn á einhverja viðburði þar sem allt væri í bundnu máli
þar sem hann skilur aðeins upp og ofan af íslenskunni
ennþá................
en
Við fórum á Miklatún
og það var bara fínt.
Hann hreyfst af laginu Álfar eftir hann Magnús
og fannst gaman að sjá mig missa mig í nostalgíu
yfir gömlum lögum Ný Danskra.

Svo var vaknað í leikinn klukkan hálfátta
og skriðið aftur upp í hálftíma síðar
þegar vitað var hvernig færi -
fannst bara nauðsynlegt að vera að fylgjast með
ef svo færi að við fengjum gull.

Í dag er svo fyrsti í vinnubrjálæði
en "útlendingurinn" situr heima
og semur ofan í mig tónlist
fyrir hin ýmsu tækifæri.
Snillingur þessi maður.

(Bendi fólki hér með á
að ef það vantar einhvern í heimasíðugerð
uppfæringar
eða lagasmíðar -
þá má hafa samband.
Ekki viss um
að hann nenni að vera vinnulaus lengi 'essi elska).

laugardagur, ágúst 23, 2008

Raunir 39

Fór með útlendinginn út í upplifunina.
Það var frekar blautt og kalt
og ekki fór nú mikið fyrir menningunni
þó svo að hitt og þetta væri í gangi.
Veðrið spilaði að sjálfsögðu inn í stemmninguna
en mér fannst persónulega allt of mikið
af þurrum, óspennandi viðburðum í boði,
en ekki nóg fjör.
Einnig finnst mér skrítið
að nánast ekkert nema myndlist
var í boði innandyra.

Sáum þó unga snillinga spila músík
á svölum inni í porti.
Voru þeir fantagóðir og skemmtilegir,
en mér skilst að bandið heiti "Hinir".

Settumst svo loppin inn á kaffihús
og fengum okkur heitt kakó,
svo heim í strætó.
(Alltaf líður mér undarlega í íslenskum strætó)

Einhver banki er svo með tónleika
í bakgarðinum mínum í kvöld.
Aldrei að vita nema maður kíki,
það er - ef hann hangir þurr helvítið á honum.

fimmtudagur, ágúst 21, 2008

Raunir 38

Það verður að segjast
að mannskepnan er ekkert nema vaninn.
Ef ekki væri fyrir vanann
væri t.d. ekkert mál að hætta að reykja,
því sjálf fíknin hverfur í raun eftir 2 vikur.

Það er skondið að kynnast sjálfum sér
dálítið upp á nýtt
og komast að því að maður er fullur af ýmiskonar smámunasemi
og með hálfgerða þráhyggju gagnvart fáránlegum hlutum.

Stundum verð ég hissa á sjálfri mér
og því hversu mikið þetta tekur á,
enda væri þetta nú örugglega ekki svona
ef ekki væri verið að flytja á milli landa.
Þetta er jú ansi snöggt allt saman.

En...........

þess vegna tel ég að það sé af mörgum ástæðum
mun skynsamlegra að fólk hefji sambúð
á hlutlausum stað.
Stað sem báðir aðilar hafa skapað saman
og þar sem annar aðilinn upplifir sig ekki sem gest
og aðilinn sem bjó þar fyrir finnist ekki einhver vera "inná þeim".

En þá vona ég að ég sé fljótlega
að fara eitthvað allt annað
þar sem svona lúxus vandamál
eru ekki til staðar.

miðvikudagur, ágúst 20, 2008

Raunir 37

Mikið óskaplega elska ég
veðrið á haustin.

Anda inn
anda út.

þriðjudagur, ágúst 19, 2008

Raunir 36

Er ekki kona einstæð lengur
þó einstök sé ég þó enn.

Það tekur tíma að venjast nýjum háttum
en spennandi er það þó
og gaman.

Verst finnst mér
að finna fyrir smáborgarahætti Íslendinga
þegar þeir sjá eitthvað óvenjulegt
eins og konu, með manni
sem er mun smávaxnari en hún
og starir því skammlaust
og jafnvel flissar.

En hann er stærri en margur
og margur er jú knár þótt hann sé smár.

Nú þarf ég bara að venjast því
að sofa ekki lengur ein í rúmi
og að taka tillit.
Borða á matmálstímum.

Tekur líklegast smá tíma
en þetta kemur.

Er alveg að verða hress á kroppinn
og fer til vinnu á föstudag.
Hasta la vista
þar til síðar

laugardagur, ágúst 16, 2008

Raunir 35

Er í batanum,
þetta er allt að koma.

Búin að vera frá vinnu síðan á þriðjudaginn
og fyrir fröken ofvirku,
þá er það aaaaðeins of mikið
þar sem mér var sagt að taka það rólega
(er það eitthvað ofan á brauð?)
og gera sem minnst.

Hef því verið að dunda mér við
að taka til í skúffum og skápum.
Það er nefnilega ekkert erfitt að sitja á rassinum
og setja dót í ruslapoka.
Aðrir fá svo að ferja pokana niður í ruslatunnu.

Hvað er annars málið með allt þetta drasl
sem maður sankar að sér í hirslur heimilsins?
Ég skil ekki hvaðan þetta kemur allt saman.

En núna er ég búin að búa til pláss fyrir meira drasl
spurning hvað það tekur langan tíma að fyllast aftur.

Á sunnudagskvöldið kemur svo kaddlinn minn til landsins
og ég byrja á nýjum kafla í lífinu.

Er spennt, hrædd, glöð, hamingjusöm, áhyggjufull og ástfangin.

þriðjudagur, ágúst 12, 2008

Raunir 34

Jahérna!
Maður er að breytast í bona fide spítalamat.
Ekki mikið gaman að því.

Gamla vaknaði í nótt
með....................
JEBBS -
skelfilega vindverki!
(þeir sem þekkja mig vita hvað það þýðir)

Ég æddi því um gólf í keng,
því mér var lífsins ómögulegt að liggja.
Ef ég lagðist niður
langaði mig að góla af sársauka,
sér í lagi á bakinu eða hægri hliðinni.
(samt hélt ég alltaf áfram að reyna - sick)

Loks náði ég smá hvíld
sitjandi í fósturstellingu
á vinstri hliðinni - í sófanum.
Allan tímann er ég að hugsa:
"Þú þarft bara að prumpa kjeddling"
þrátt fyrir að verkurinn væri í raun ekki þannig
og ég væri búin að þurrpústa fyrir allan peninginn.

Á sama tíma er ég einnig að hugsa -
"Kannski ætti ég bara að fara á slysó?"
en hætti alltaf við.
"kem örugglega uppeftir og rek hressilega við
- att bú og ég bara vandræðaleg"
Hugmynd þeirri var því eytt.

Í staðinn sannfærði ég nú sjálfa mig um
að það væri ekkert að mér
þrátt fyrir að hafa tvisvar ælt af sársauka
(notaði bara pabbasálfræðina)
og skellti mér í vinnuna í staðinn.

Tíminn byrjaði klukkan 6:30,
mín skoppaði af stað.........
en fann fljótlega að þetta var ekki að virka
var eiginlega ansi mikið vont.

Ég kaldsvitnaði og fékk náladofa um allan líkamann,
en þegar mig fór að svima sá ég að þetta var ekki að gera sig.

Setti konunum fyrir æfingar - og bailaði upp á slysó.
Ók í keng inneftir og tékkaði mig inn.
Hitti fyrrverandi tengdamömmu sem ritar læknasögur.
(Hún gleymdi að kalla mig fyrrverandi - sætt. )
En inn fór ég - enda rólegur morgunn.

Það var potað, klipið, bankað, hlustað,
sogið, spurt og svarað..........
og spurt og svarað meira.
HS:"Er þetta vont?"
B:"Já"
HS: "Ok þá geri ég það aftur" ( !!)

Eftir 2 tíma ákvað hvítsloppafólkið
að ég þyrfti að fara niður á Hringbraut.
Því var ég sprautuð með morfíni
og send í babú bílnum niður í bæ.
Gantaðist aðeins við sjúkraflutningamennina
bað þá að hækka músíkina í botn og setja diskóljósin á,
þeim fannst það svolítið gaman.

Á stóra spítalanum var potað og bankað meira
auk þess sem ég fór í allskonar sónar
pissuprufu - og svo var spurt og svarað.
4 tímar í skoðerí - en engin niðurstaða,
fullt af hugmyndum samt.

Loks var mér sagt að ég mætti fara heim
með nálina í arminum,
þar sem að verkurinn var ekki jafn svæsinn og áður
og sagt að koma strax ef eitthvað versnaði.

Á að mæta aftur 8 í fyrramálið
fasta frá klukkan tíu -
Þá ætla þeir að tjékka á botnlanganum.
Vona samt að ég prumpi bara í nótt.

mánudagur, ágúst 11, 2008

Raunir 33

Ég er ekki með teljara á síðu minni,
en það er vegna þess
að þegar ég setti einn slíkan upp
forðum daga -
setti hann allt systemið í rugl.
Hef ég því ekki þorað að skella öðrum inn.

Geri ég mér því enga grein fyrir þeirri traffík
sem fer hér um daglega
og hef reyndar lítið pælt í því.

Það kemur mér þó alltaf á óvart
Þegar ég frétti af fólki
sem les hér reglulega rugl mitt -
fólk sem þekkir mig ekki,
þekkti mig einu sinni,
eða var áður partur af lífi mínu
en ekki lengur......
Virðist þó hafa óbilandi áhuga á
að fylgjast með högum mínum
og hugleiðingum
án þess þó að kvitta fyrir heimsókn.

Þetta fólk deilir svo "lífi" mínu
sem það les um hér
með öðru fólki
sem ég veit ekki til
að hafi sýnt mér eða mínu
nokkurn áhuga um ára, eða jafnvel áratuga skeið.

Það finnst mér merkilegt.
En ég segi bara:
Verði ykkur að góðu
og góða skemmtun.

fimmtudagur, ágúst 07, 2008

Raunir 32

Að fá magapest í IKEA
með tilheyrandi sprengjuuppköstum
og .......öðrum köstum
er spes, svo ekki sé meira sagt.
En að lenda í þessari lífsreynslu
ætti að vera nóg,
en við bættist að tvær ungar dömur
ákváðu á sama tíma
að vera voða fyndnar
og njósna yfir klósettbásana
á almenningsprívatinu.

Eftir 2 klukktíma
tók ég sénsinn á að reyna að komast heim.
Bílferð sú
var líka..............spes.

Vona að fjörið sé yfirstaðið.

miðvikudagur, ágúst 06, 2008

Raunir 31

Vond reynsla í kvöld.

Ég og vinkona fórum á versta sjóv ever
Drag keppni Íslands.

STRÁKAR MÍNIR
HVAÐ ER AÐ GERAST??

Gengum út fyrir hálfleik.
En hlógum svo eins og fávitar í bílnum.

Eitthvað til að grínast með í framtíðinni.

Er samt enn í smá sjokki.
Einhver er að misskilja eitthvað.............
einhversstaðar.

mánudagur, ágúst 04, 2008

Raunir 30

Jæja.

Unglingurinn kominn heim
úr vel heppnaðri Kirkjubæjarklaustursferð.
Ég á svo yndislegt barn.

Hálfdaninn er líklegast á leið á skerið,
erum að finna út úr þessu öllu saman
en svo er stefnt að því að ég haldi utan
eftir áramót.

Hvort það verður út til Danmerkur
eða eitthvert annað í heiminum
kemur svo í ljós.
En við höfum mikinn áhuga á hjálparstarfi
og langar að skoða þá möguleika.

Ég er spennt
hrædd
glöð
vongóð
og hamingjusöm.

Lífið byrjar núna.

föstudagur, ágúst 01, 2008

Raunir 29

Það er ýmislegt á mann lagt í hamingjunni.

Ekki nóg með að vera fjarri ástvini
heldur bilaði tölvan
og nú fæ ég að vita
að það þurfi að skipta um móðurborð í henni!!

Ekki vinsælast í heimi.
(ekki ókeypis heldur.....það er dýrt að eiga ungling)

Einni góðri vinkonu fannst þetta alveg ómögulegt
núna væri ekki tíminn til að vera tölvulaus
og ákvað að lána mér tölvu í viku......

en ég næ ekki að nettengja hana.

Veit ekki hvers vegna.

það er því grenjað á gresjunni
á milli þess sem það er glaðst yfir lukkunni
og ástinni.

En gleðilega Verslunarmannahelgi.
Gangið hægt um gleðinnar dyr og allt það.