fimmtudagur, febrúar 26, 2009

WTF

Fyrirgefið.
En hvað er málið
með þetta Kleópötru fyrirbæri???

mánudagur, febrúar 23, 2009

Heilaraunir

OK
Setjum þetta upp svona.....

Segjum að ég nái að selja íbúðina.
Hvað geri ég þá við peninginn?

Hvað geri ég við húsgögnin?
Tek ég þau með mér út......eða.....
Ég meina.....útlendingurinn á ekki neitt af viti....
sel ég þau?

Hvað er hagstæðast?

Mér skilst að ég megi ekki selja bílinn úti
nema ég sé búinn að eiga hann í meira en 2 ár.
Hvað geri ég þá við hann?
Mig langar ekkert að eiga bíl í Kaupmannahöfn.

Hvernig gengur maður frá málum
hjá t.d. Lánasjóðnum?
Get ég fengið frystingu á láninu mínu þar
ef ég fer aftur í nám?

Hversu mikið kostar að koma drasli til Köben
og þá er ég bara að tala um smávörur.......
og hvað svo ef maður tekur með sér stærri hluti?
Er þetta eitthvað vit?
Ef ég geymi hinsvegar dótið hér þar til seinna
hvar geymi ég það?

Okkur vantar allt úti
rúm, sófa, potta og pönnur.......allt
sé ekki að ég fengi mikinn pening fyrir dótið
ef ég sel það hér
og þá enn frekar get ég ekki keypt nýtt úti.....
ef ég þá gæti selt það

Svona lætur heilinn í mér alla daga
og allar nætur núna.

Andskotas rugl!

sunnudagur, febrúar 22, 2009

Trúmennskuraunir

Í júlímánuði í fyrra
(fyrir 7 mánuðum)
var það ekki landflótti
sem kom upp í hugann
þegar ég velti fyrir mér
að flytja til Danmerkur.

Það var fyrst og fremst ástin sem togaði
og sú staðreynd
að mig hefur alla tíð langað
að búa annarsstaðar en á Íslandi,
fara í nám sem ekki er í boði hér,
en hef ekki haft frelsi til þess fyrr en núna.......

eða.......
Þannig var staðan í júlí í fyrra.

Það eina sem hélt aftur af mér á síðasta ári
var tryggð mín við núverandi vinnuveitanda
sem ég taldi mig vera skuldbundna,
þó svo að ég sé ekki samningsbundin
og hafi aldrei skrifað undir neitt.
Ég virði bara einfaldlega mín loforð,
hvort sem þau eru munnleg eða skrifleg
og fannst ég ekki geta hlaupist undan merkjum.

Ég hafði ekki, frekar en aðrir
hugmynd um í hvað stefndi
og nú sit ég í súpunni.

Ef ég hefði flutt út í ágúst í fyrra,
hefði ég getað selt íbúðina mína á góðu verði,
losað mig við bílinn áður en hann varð glæsikerra
gengið beint inn í vinnu í Kaupmannahöfn,
þar sem töluverð eftirspurn var eftir fólki í minni stétt
og sest á skólabekk í janúar.

Núna er ég föst á Íslandi,
komin í eigna og skuldafjötra,
íbúðin ekki sölu- né leiguhæf
bíllinn orðin myllusteinn um hálsinn á mér
og engin lengur atvinnutækifærin úti.

Ég er með innilokunarkennd
ásamt því að lifa í stöðugu óöryggi.

Stundum borgar sig ekki að vera of tryggur og trúr.

laugardagur, febrúar 21, 2009

Skítaraunir

Undanfarna mánuði
hef ég gert nánast ekkert
sem flokkast undir heimilsstörf,
annað en að þvo þvott
og hefur hann að mestu innihaldið vinnufatnað.

Hér eru staflar af dagblöðum,
dósum, plastflöskum og ruslpósti.
Í skúffum og skápum hafa safnast upp hrúgur
af einhverju sem ég veit ekki einu sinni hvað er!
Margt sem þarf að sortera og flokka.

Geymslan er á hvolfi og full af öllu og engu.

Ég þarfnast eiginlega sumarleyfisdaga
til að geta komist yfir allt sem ég þarf að gera.
Hvað ef ég næ t.d. að leigja út íbúðina mína?

LISTINN:

1. Fara með allt endurvinnanlegt á vinnslustöðvar
(það þýðir m.a. að ég þarf að flokka og telja drykkjarumbúðir
frá neyslu alls síðasta árs)

2. Fara í gegnum allar skúffur og alla skápa heimilisins
(flokka í hópana: "Henda", "selja"og "geyma").

3. Þrífa alla veggi og öll loft heimilissins hátt og lágt
(hér býr kertaóð kona í ljóslitaðri íbúð sem á ekki fyrir málningu)

4. Þrífa glugga og gluggakarma
(skrapa, pússa karma og lakka eins og ég ætlaði að gera fyrir 4 árum)

5. Gera við skápa í svefnherbergi og eldhúsi og hengja upp hurðar
(Þarf víst smið í það verkefni)

6. Gera við krana í eldhúsi og baðherbergi
(þarf líklegast pípara í það verkefni....andsk...)

7. Hreinsa og bóna parket
(fæ hroll í tærnar af tilhugsuninni, hata að bóna)

8. Moka út úr unglingaherberginu og háþrýstispúla allt þar inni
(þarf líklegast einhvern með stáltaugar í það verkefni
aldrei að vita hvað kemur undan rúminu)

9. Mála baðherbergið
(sótskemmdir of alvarlegar til að hægt sé að þrífa þær)

10. Fara ítarlega í gegnum geymslu og henda og flokka
( ef ekki notað í heilt ár, losa mig við það á einn eða annan hátt
nema það séu hlutir sem eiga að vera í geymslu s.s. útilegudót osfrv.)

11. Olíubera viðarhúsgögnin og leðurstólana
(finnst það reyndar skemmtilegt- veit ekki af hverju....sick fetish)

12. Raða reikningum, launamiðum og kvittunum í möppu
( dagur skattmanns nálgast og allt liggur enn í einni hrúgu oní skúffu)

13. Halda markaðshelgi og selja allt sem hægt er að selja, gefa/henda rest.
(finnst Kolaportið andstyggilegt, vil bara gera þetta heima, auk þess sem portið er okurbúlla)

14. Panta pláss á hæli svo ég geti náð heilsu eftir þetta allt saman.

Ég veit að það verður yndisleg tilfinning þegar þetta er allt saman búið - en ég veit bara ekki hvenær eða hvernig ég á að fara að þessu.
Á sínum tíma öfundaði ég pakkið í "Allt í drasli" vegna þess að það fékk her fólks heim til sín sem bara reddaði málunum og gerði svona hluti.

Ég var bara aldrei nógu mikill sóði til að geta tekið þátt í því plebbasjóvi.

Þá er að bretta upp ermarnar og byrja að taka til í sínum eigin garði,
áður en maður fer að taka til í heiminum.

Ef þið finnið hjá ykkur endalausa löngun til að koma og aðstoða
(eruð t.d. með Monicu syndrome) eruð þið hjartanlega velkomin.
Bjór í boði fyrir gott fólk.

miðvikudagur, febrúar 18, 2009

Hvað get ég sagt......

THEY ARE BACK........AND THIS TIME THEY ARE PISSED
THE KILLER PENGUINS!!



mánudagur, febrúar 16, 2009

Morgunraunir

Vaknaði við súran algebru draum
og því ööööörlítið þversum.
Reis þó upp með tilheyrandi braki og brestum
(í skrokk - ekki rúmi)
og lullaði í átt að svefnherbergisdyrunum.
Á leiðinni dúndraði ég litlu tánni í rúmfótinn.
Ái!
Hökti blótandi inn á bað
og létti á mér........
Frábært - enginn klósettpappír!

Lufsaðist, orðin vel úrill núna
inn í ískalt eldhúsið
og hellti vatni fyrir tvær krúsir á kaffivélina.
Ekki til kaffi nema fyrir eina krús í pokanum
og ekki hægt að hella vatninu af vélinni.
Æði,
Spurning um þunnt kaffi, eða ekkert kaffi.

Hellti höfrum og vatni í skál
og inn í örbylgjuna.
Orðið heldur lágt í kanilsykurskönnunni.
Greip sykurpokann og hellti varlega í könnuna,
úps, stór köggull skellur á opinu
og sykur fer um allt gólf.
Næ fussandi og sveiandi í handkústinn
og bogra því næst við að sópa upp sykri.
Fæ þá skyndilega þennan svaka sting í mjóbakið,
æpi upp yfir mig og rykki mér uppréttri,
en skell þá með hnakkann í opinn eldhússkápinn
og fæ rosa kúlu.

Á meðan á öllu þessu stendur
gubbast hafragrauturinn allur upp úr skálinni
og út um allan örbylgjuofn,
því ég gleymdi að slökkva á honum.

Sit nú svöng með bólgna tá,
kúlu á hausnum,
sykur undir tánum......
ónærð og óskeind,
með þynnsta kaffi í heimi.

Velkomin á fætur.

sunnudagur, febrúar 15, 2009

brettaraunir

Einu sinni fór ég á snjóbretti.

Þetta var á Akureyri
og ég var stödd þar í skíðaferðalagi
með 40 unglingum í gleði.

Ég er ansi lunkin á skíðum
og hélt að þetta brettadæmi
yrði nú ekki mikið mál.
Little did I know.

Ég hef aldrei á ævi minni
dottið eins oft og eins svakalega
og þennan dag.
Ég hentist um í stórkostlegum loftköstum
og lenti svo í hinum undarlegustu stellingum.
Þurfti svo að brölta á fætur með miklum tilfæringum
því það er alls ekki auðvelt að reisa sig við í þessari aðstöðu.

Það var samt mikið hlegið allan daginn
því þetta var auðvitað alveg hræðilega fyndið.
En þegar að 6 ára pollar
þutu framhjá mér af miklu öryggi
þar sem ég rann aumkunnarverð áfram um 1 metra
og flaug svo eina ferðina enn á hausinn,
leið mér eins og aumingja.

Daginn eftir var ég ónýt.
Ég gat ekki hreyft einn einasta vöðva í líkamanum
og það þurfti að hjálpa mér upp í rútuna.
Samstarfskona leiddi mig svo heim að dyrum
og mér var hjálpað ofan í heitt bað.

Ég var frá vinnu í 3 daga.

Hef ekki farið aftur á bretti.

þriðjudagur, febrúar 10, 2009

Endaraunir

Oftar en ekki
eiga setningar úr bíómyndum
og sjónvarpsþáttum það til
að festast í höfðinu á mér.

Til að mynda í hvert skipti
sem ég nota sápustykki í sturtu
kemur Chandler úr Friends upp í hugann
í umræðunni við Joey um slík stykki
þ.e. af hverju þeir ættu ekki að deila þeim:
"What's the last place I wash and the first place you wash?"

Þennan vetur hefur það verið setning
ú bíómyndinni "The Bucket List"
en þar fer Jack Nicholson með þá góðu línu:
"Never trust a fart"

Í vetur hefur íslenska þjóðin verið undirlögð
af upp og niðurgangspestum
en þær helltust yfir landann
um leið og stórhreinsanir hófust
í valda og stjórnarstöðum.
Virðist sem ein allsherjar skituhreinsun eigi sér stað.
Út með drulluna!

Ykkar yndisleg hefur að sjálfsögðu fengið sinn skammt
og helst til oft ef út í það er farið,
en enginn virðist undanskilinn þessum pestum.
Allt frá ungabörnum upp í tannlaus gamalmenni
glíma við dolluna sólarhringum saman.

Þar sem ég þarf í vinnu minni
að hoppa mikið um og skoppa
ásamt því að lyfta þungum lóðum
og kreista saman maga og rassvöðva
kemur þessi setning óneitanlega oft upp í hugann:
"Never trust a fart"
Oft hef ég verið mjög fegin eftirá,
þar sem ég rauk inn á hásætið
eftir tíma og leyfði loftinu að leika um postulínið.
Þeim er nefnilega ekki alltaf treystandi.

En nú vona ég að þessar hreinsanir
séu að renna sitt skeið á enda
og upp renni tími eðlilegra hægða
og uppgangs í þjóðfélaginu í leiðinni,
því enginn hefur jú gaman að því
að skíta á sig öllum stundum.
Það er líka svo leiðinlegt að þrífa það eftirá.

mánudagur, febrúar 09, 2009

-

og síðan skein sól..............

fimmtudagur, febrúar 05, 2009

deearr-raunir

Doktor Phil
hefur oft á tíðum reitt mig til reiði
með alhæfingum
og vasabókarsálfræði
ásamt yfirplasteraðri eiginkonu
sem heldur því fram
(líkt og Michael Jackson)
að hún hafi ekki stundað lýta-aðgerðir
og brosir svo strekkt og vitlaus
framan í heiminn.

þabbasonna.

En eitt er það sem kaddlinn sá hefur sagt
sem að ég er svo fullkomnlega sammála.
hann segir:
"Þú leysir ekki vandamál innan hjónabandsins
með því að leita út fyrir hjónabandið"

Ergo: Framhjáhald leysir engan vanda.

Nú hef ég horft á hjónabönd vina minna,
ásamt mínu eigin,
hrynja niður og verða að engu
vegna þess að einhverjum fannst grasið grænna
hinumegin.

Eftir sitja sárir einstaklingar
sem áttu þetta ekki skilið
og höfðu ekki hugmynd um
að makinn þjáðist af "grasleysi"

Oftast..........
því miður
eru þetta karlmenn á miðjum aldri
sem vakna upp í "ruglinu"
þó svo að ég þekki líka lesbíur í sömu aðstöðu.

Mig langar helst að "bitch-slappa" þessa aðila
og segja þeim að skammast sín.
Wake up asshole og lærðu að meta það sem þú átt.

En því miður
finnst þjóðfélaginu
þetta bara allt í fína
og samþykkja vitleysuna.
"Þetta er bara lenska " segja þau.
Skítt með fórnarlömbin........
börnin og fjölskyldurnar.

Skamm, segi ég
og megið þið fávitafífl bíta gras það sem eftir er
og fá af þvi heljarinnar skitu.

mánudagur, febrúar 02, 2009

Ferðaraunir

Það er víst kominn febrúar.
Áður en maður veit af verður kominn júní.
(og svo aftur desember)

Ég verð að fara að skoða framtíðina
af einhverri alvöru.
Hvað ætla ég mér að gera
og hvernig ætla ég að fara að því.........
Ekki seinna að vænna
vegna þess að eins og við vitum
þá líður tíminn svo déskoti hratt.

Nú í augnablikinu
er þó verið að einblína á páskana
og hvort að hægt verði að skreppa í stutta heimsókn.
Því er verið að afla sér aukatekna eins og hægt er
og biðja almættið að hafa áhrif á miðaverð.
Kannski kjánalegt að ætla sér slíkt
en mér finnst bara einfaldlega of langt
að sjást ekki í 5 mánuði.
Grunnurinn er bara ekki nógu gamall
og gróinn til að taka sénsinn á slíku.

Er annars bara ágæt
tók til í skrokknum í gær
og þverspúlaði gömluna
frá toppi til táar.
Líður strax mun betur.
Það er víst satt og rétt
að aðlaðandi er konan ánægð......
eða a.m.k. aðeins sáttari.

Verið í stuði.

sunnudagur, febrúar 01, 2009

skemmdarraunir

Ekki það
mér finnst skemmdarverk alltaf fáránleg
og ekki þjóna neinum tilgangi
og ég var alltaf að segja
að kostnaðurinn við að þrífa Alþingishúsið
myndi bara lenda á skattborgurum......

En kostar það virkilega 12 milljónir að spúla slotið
og skipta um nokkrar rúður?

Við hvaða iðnaðarmenn skipta þeir þarna við Austurvöll?

....og fyrirgefðu,
en af hverju þurfa bæði Ingibjörg og Geir
að fara til útlanda vegna sinna meðferða?
Ég þekki því miður ansi marga sem hafa farið
í krabbameinsaðgerðir og meðferðir
og allir gerðu þeir það hér heima við......
Er þetta einhver sérmeðferð aðeins í boði fyrir aðalinn
eða eru þau bara svona spéhrædd?

En þetta hlýtur að kosta eitthvað,
eða er það ekki?