mánudagur, júní 30, 2008

Raunir 18

Ættarmóti lokið.

Hef ég sjaldan hlegið jafn mikið
eða verið jafn kalt.
En ég var formlega ættleidd
og á nú þrjú stykki "slekt"
ekki amalegt það.

Stundum verð ég þó svo hissa á okkur Íslendingum.

Ískalt regnið lemur okkur í bak og fyrir
ásamt tilheyrandi roki og djöfulgangi,
en samt kúldrumst við í tjöldum,
sannfærum okkur um að það sé VÍST sumar
og hlæjum að öllu saman
íklædd fjórum lögum af ullarfatnaði.

Þetta var ótrúlega gaman
og vel þess virði,
þrátt fyrir að nú sé gamalt vandamál
búið að taka sig upp í kjölfarið.

Ég er komin með kristallaflakk í eyrað
og er nú aftur eins og belja á svelli
með sjóriðu dauðans!

Acchh...
síðast var ég svona í mánuð.
Hlýt að geta þolað nokkra daga,
en læknimaðurinn er víst í fríi.

Er samt ekki viss um
að ég leggi aftur á mig tjaldlegu í sumar.
Húsvagn eða hótel takk,
mín er nebblega baunaprinsessa.

fimmtudagur, júní 26, 2008

Raunir 17

Fór upp á Kárahnjúka
hvar ég gekk í fjall
og horfði á álfa dansa.

Var þar um að ræða opnunaratriði
Jasshátíðar Austurlands,
en þar var flutt verkið Draumar
eftir Einar Braga og Irmu Gunnarsdóttur.

Verð að segja að þetta var rosalega magnað.
Svakaleg upplifun.

Drakk svo romm í vinnubúðum Pólverja,
sem nánast allir eru farnir
og rak kindur.

Um helgina er svo ættarmót
hjá ættinni sem ég er ekki í
en sem vill fá mig með.......

Life is good

sunnudagur, júní 22, 2008

Raunir 16

Fann mér pall í gamla Kópavoginum.
Pallurinn sá er vel smíðaður og á skjólgóðum stað,
umlukinn gróðri og góðum grönnum.
Hef hugsað mér að venja komur mínar þangað
í hvert sinn sem sólin glennir sig í sumar.

Það væri svolítið skrítið, ef ég þekkti ekki húsráðanda,
en reyndar er hún vinkona mín
og hefur gefið mér leyfi til að krassa á pallinum hennar
hvenær sem mig lystir -
hvort sem hún er heima eður ei.
Ekki amalegt það.

Í gær skellti ég mér í barnaafmæli til nefndrar vinkonu
og var það eitt besta barnaafmæli sem ég hef mætt í ever.
Spilaði þar inní að úti var blíðskaparveður
og allir bara úti að leika og njóta,
hvort sem þeir voru 2 ára eða 82 ára.

Um kvöldið þegar barn var farið af bæ,
þar sem að foreldrar eru jú því miður fráskildir,
var svo setið áfram, grillað og sungið
með litlum snillingi frá baunaveldi
sem er svo flinkur á gítarinn
að mér varð stundum illt í hjartanu þegar hann spilaði,
en á góðan hátt.
Hann leyfði mér líka að syngja lag
sem hann hafði samið -
og er ég ekki frá því að þarna sé kominn hittari.


Það besta var hins vegar að það var hlegið
og hlegið og hlegið og hlegið.......og hlegið meira
þangað til kviðvöðvarnir emjuðu.

Mikið lifandi skelfingar ósköp var gaman.

Ég gæti meira að segja verið orðin ástfangin
En ég er algjörlega búin að eignast nýjan skemmtilegan vin.....
OG PALL!!

föstudagur, júní 20, 2008

Raunir 15

Vill einhver útskýra fyrir mér
hversvegna manneskja eins og ég
á ekki pall eða svalir.

Vonlaust að lesa inni í svona veðri
og athyglisbresturinn veldur því
að ég get ómögulega lesið innanum fólk.

miðvikudagur, júní 18, 2008

Raunir 14

Það er alltaf svo ljómandi skemmtilegt að verða sér til skammar.

Ég er snillingur í því.

Ef ég er ekki með fótinn í munninum er ég búin að gera einhvern óskunda - alveg óvart auðvitað - en óskunda engu að síður.

Í gær var mín virðulegur kynnir á þjóðhátíðarskemmtun Seltjarnarnesbúa......eða..... við skulum umorða þetta. Í gær ÁTTI ég að vera virðulegur kynnir..... en þar sem að mitt litla sjálf hefur aldrei lært almennilega á þetta orð: virðulegt - varð lítið um fína drætti. Það er svo asskoti merkilegt, en venjulega get ég bullað á við fjóra fyrir framan fólk - blaðalaust - og er sjaldan kjaftstopp. Mismæli eru líka sjaldgæf, nema ég ætli mér að gera það til grínauka og gleði. En þó er það svo - að ef míkrófón er troðið í andlitið á mér þá einhvernveginn frýs allt.
Ég fer í annarlegt ástand.

Þannig að:

Fyrir utan að ég var með opna buxnaklauf í gegnum alla skemmtunina í gær, þá sagði ég einu sinni "góðan dag" í staðinn fyrir "gjörið svo vel". Kynnti atriði sem var búið, endurskírði sirkushópinn, gleymdi unglingunum og BAUÐ öllum í kaffi í félagsheimilinu.
Þetta gerði ég allt saman með bros á vör og grettið fés, þar sem ég sá ekki rassgat allan tíman því blessuð sólin skein beint í augun á mér.
Stóð mig sem sagt með mikilli prýði.

Nú þarf ég að athuga hvort að ég fái ekki örugglega borgað,
þrátt fyrir smá klúður.

Endaði daginn þó á léttum nótum. Settist með afmælisbarninu á kaffihús í sólinni og naut þess að vera Íslendingur í góðu veðri á 17. júní. Eitt fannst okkur samt skrítið. Höfðum stefnt á Jómfrúna til að fá smörrebröd og öl í fallega garðinum þeirra, en þá var bara lokað! Þjóðhátíðardagur - bærinn fullur af fólki - geggjað veður og þeir loka! getur ekki verið gott fyrir bissnessinn. Við fundum þó annan sælureit og öl - en ekkert smörrebröd -
Oh well - maður getur ekki fengið allt í lífinu.

þriðjudagur, júní 17, 2008

Raunir 13

Til hamingju með afmælisdaginn
hennar Grétu vinkonu.
Hún er stolt 41 árs gömul kona í dag
17. júní 2008.

Ferfalt húrra fyrir henni!

....og já
svo er víst þjóðhátíðardagurinn líka.
Vúppí!

sunnudagur, júní 15, 2008

Raunir 12

Það vantar ennþá eitthvað pínulítið upp á sumarið.
Mér fannst eiginlega bara kalt í dag.
Af hverju er ég hissa?

17. júní á þriðjudaginn.
Eina ferðina enn verð ég stödd á Eiðistorgi
og í þetta sinn í hlutverki kynnis.
Ég hef þar með verið þar í öllum hlutverkum
fyrir utan lúðrasveitarmeðlim
og ég er ekki að sjá það gerast.

Ég hef verið:
fjallkona
leikari
trúður
söngstjóri
umsjónarmaður
Æskulýðsfulltrúi
og áhorfandi.

Kannski ég láti verða af því að læra á túbu
og verði með í bandinu á næsta ári???
Nei, held að þetta verði gott eftir þetta.
Allir komnir með ógeð á manni.

Trúðadjobbið var samt best.
Ein versta lífsreynsla lífs míns...

Þannig var að ég var í dúó atriði við annan mann
sem snérist um grín, glens, söng og töfrabrögð.
15 mínútum áður en við áttum að fara á svið
hringir félagi minn í mig
og tilkynnir mér að hann sé kominn með yfir 40 stiga hita
hálsinn á honum lokaður
og hann sé bara hundveikur.
Kemst ekki.

OMG!

Tvíleikurinn breyttist í einleik
spunninn á staðnum
og satt best að segja var þetta það ömurlegasta sem ég hef gert.
Það sem ég svitnaði.
Það er ekkert verra en börn sem hlæja ekki að djókinu
og horfa á þig með vanþóknun og hneykslun
Talandi um að deyja á sviðinu.

ps. Gríman var bara fín.
flottar veitingar og skrítið fólk.
Sumt gaman, annað dead boring.
Leikhúsfólk er ótrúlega merkilegt með sig.
Skil alveg hversvegna ég gafst upp á þessu.

föstudagur, júní 13, 2008

Raunir 11

Blindan orðin soddan heimsborgari.
Stundar hún nú menningarviðburði
af miklum móð og mykju -
þykist vera eitthvað.
Ég meina, er ég ekki listamaður?
Á ég ekki að vera með árskort á alla svona viðburði?
Nú get ég loks farið að slá um mig......
As if.

Var boðið á aðra tónleika í gær...
NEI - ekki James Blunt!
Enda hefði ég gubbað undir þeim hroðbjóði.
(Unglingurinn fór hinsvegar á það gigg
og lýsti því yfir við heimkomu að 2 tímar af væli
væri aaaaaðeins of mikið ef ekki bara alltof mikið.)

Ég fór hins vegar á tónleika hjá Eivör og Röggu Gísla
sem haldnir voru í Salnum í Kópavogi.
Jarðarfarastemmning í salnum fyrir tónleika,
ræskingar, einstaka hóst og heilagur svipur,
sem breyttist í almennan vandræðagang
þegar að enginn birtist á sviðinu í u.þ.b. 7 mínútur
eftir að ljósin voru deyfð.

En.

Eivör Pálsdóttir er stórkostleg.
Hef aldrei séð hana life fyrr.
Stúlkan er ekki bara frábær söngkona
heldur er hún falleg, sjarmerandi og skemmtileg.
Hún bræddi mig inn að beini
og ekki laust við að það væri grenjað eitthvað
ásamt gæsahúðastraumi og flissi.

Hún og Ragga eru ágætis teymi saman
og raddirnar þeirra tóna skemmtilega ......
þ.e. þegar Ragga syngur eins og manneskja en ekki eins og fífl.

Mikið lifandis hvað ég er leið á þessari smábarnaröddu
bullmáli og einhverjum hallærislegum "krúttheitum"
sem bara eru ekki að virka.
Fékk aulahroll tvisvar.
Af hverju syngur Ragga líka alltaf á ensku
(texta sem eru btw ekki á vandaðri ensku)
á meðan að Eivör syngur allt á Færeysku og Íslensku?

En lagasmíðarnar voru flestar skemmtilegar
slagverksnotkun frekar töff
en fengu þær stöllur vandaðan undirleik
frá Kjartani Valdemarssyni píanóleikara (mr. dreamy)
og Pétri Grétarssyni ásláttarmanni par excellance
en sá maður sló einnig í gegn í húmor.

Skemmtilegir tónleikar í heildina
og ég fór glöð heim.

Nú er það Gríman í kvöld...
HVAR ENDAR ÞETTA????

miðvikudagur, júní 11, 2008

Raunir 10

Sexy undirföt geta verið trikkí stöff,
eins og það er gaman að þeim.

Til að mynda finnst mér fáranlegt
að standa í sokkabelti og lacy sokkum
og engum skóm.

Það er bara eitthvað ferlega hallærislegt við það.

Einnig getur verið hættulegt óvönum
að stunda heimaleikfimi í háum hælum.
Let's face it- lífið er ekki bíó.
(Buxur eiga það t.d. til að festast um ökkla, bolir um axlir
og það er ekki gaman að þrífa
eftir "9 1/2 weeks" matarupplifun á nærfötunum)

Netsokkabuxur geta líka orðið púkó
þegar puntubrókin er farin
og hvað er málið með þá ókvenlegu athöfn
að smella klofbót?

Persónulega finnst mér líka kona
sem er ber að neðan í engu nema haldara
einkar lummuleg.
Svipað og karlmaður í engu öðru
en skyrtu og svörtum sokkum

Sömuleiðis hafa flestir karlmenn
einungis komist í kynni við samfellur
og sokkabandaklemmur
einstaka sinnum á ævinni -
sumir jafnvel bara einu sinni......
Á brúðkaupsnóttina.

Það getur valdið smá vandræðagangi.

Aumingjans mennirnir fara í klessu
því þeir kunna ekkert á þessar smellur
bönd, reimar og dót.

Ég horfði á eina hjásvæfu fara í panikk-kast
vegna þess að hann vissi ekki á hverju hann ætti að byrja.
Eru það sokkarnir......
haldarinn........
og hvernig losarðu brókina undan beltinu???
Sú gleði endaði í tárum,
hans - ekki mínum.

Um daginn stóð ég í fínni búð
og mátaði ýmiskonar samfellur.
Vandamálið var
að þegar þær pössuðu um botninn
vantaði alltaf eitthvað á toppinn.
Sölukonan var ekki lengi að koma með lausnina
"Þú kaupir bara svona gervibrjóst
og setur inn í skálarnar. (!!)

Ó, je.

Sé það fyrir mér......
Sérlega kynæsandi
að láta týna af sér flottheitin
og út rúlla litlir glærir pokar fullir af kvoðu.
"Uuuu hvað er þetta?"

-----------

Neibb. Virkar ekki.

Persónulega finns mér fallegir náttkjólar
og sloppar oft auðveldari lausn,
en það er varla til sá karlmaður
sem geymir ekki innra með sér draum
um konu í lacy undirfötum.....
Þangað til hann upplifir það.

mánudagur, júní 09, 2008

Raunir 9

Skellti mér á minningartónleika
Árna Scheving djassista,
en gillið var haldið á Hótel Sögu í gærkveldi.

Það var svo pakkað að á endanum var selt í stæði.
Bara eins og á fótboltavellinum.

Ég var svo sein að ákveða mig
að þegar ég mætti á kantinn
var komin löng röð, sem ég að sjálfsögðu plantaði mér í.
Það var nokkuð ljóst
að elliheimilin höfðu planað útivistardag
enda flestir vel yfir sextugt
og frekjan í röðinni í takt við það.

Ilmvatnsangandi eldri konur með lagt hár
tróðu sér ítrekað framfyrir mig
(af hverju segir enginn þessum konum
að ilmvatn rennur út?)
og ég reyndi ítrekað
að sýna móðgun mína á penan hátt,
senda svipi, ræskja mig....
en þær tóku ekkert eftir því
og héldu áfram að troðast.
Karlarnir héngu hinsvegar pokalegir undir vegg
greinilegt að kellurnar hafa peningaumráðin.

Þegar ég heyrði út undan mér
að það væri orðið uppselt,
gerðist ég hins vegar grimm.
Ég ýtti með olnbogum og sagði hátt og skýrt:
"Það er nú óþarfi að vera með dónaskap
og troðast framfyrir fólk"
en ég fékk bara heyrnarlausan þóttasvip frá frúnum.
Augnablik sá ég fyrir mér skrítinn kvennaslag,
en lét það eiga sig.
Lenti því að lokum í áðurnefndu stæði.

Gamla liðið hrúgaðist nú á barinn og keypti tvöfalda -
ég náði mér í vatnsglas og kom mér fyrir úti í horni.

Eitthvað fannst mér nú þetta allt ódjasslegt eitthvað.
Til að hlusta á djass, á maður helst að vera ofan í kjallara
á lítilli, reykmettaðri búllu, með rauðvín og nálægð.
Nóg var nú nálægðin þarna
en bara ekki á réttum forsendum.
Það tapast bara einhver stemmning
þegar þú stendur einn upp á endann
í Súlnasal Sögu og sérð ekki einu sinni músíkantana

Tónlistin var þó flott og vel flutt
enda fullt af snillingum þarna samankomnir.
Ég gat alveg gert dúfuna.

Ég sá líka fullt af frægu fólki
og heilsaði þeim að sjálfsögðu öllum innilega
og skemmti mér því næst yfir
hversu ráðvillt það varð á svip
þegar það reyndi að rifja upp hver ég væri.

Raunir 8

Þetta er merkilegt.

Komumst að þeirri niðurstöðu
að það sárvantar skemmtistað
sem er með 30 ára aldurstakmark.

Það var sama hvert var litið inn
allsstaðar 18-22 ára í meirihluta
og tónlist og andrúmsloft
í samræmi við aldur.
Sorry,
en mér finnst bara ekkert skemmtilegt
að skemmta mér með vinum dóttur minnar.
Held að þeim finnist líka ekkert gaman
að skemmta sér með mér.
(nema þegar ég fer úr að ofan......
neeeei djók)

Mér finnst líka tilfinnanlegur skortur
á almennilegum dansgólfum.
Allt morandi í frímerkjum
sem eru svo pökkuð og sveitt
að það eina sem þú getur gert
er að hoppa upp og niður.

Nasa - eina almennilega gólfið
alltaf með einhverjar úldnar hljómsveitir
eða techno dídjeia.
Ekkert Jackson, KC eða Pointer.

Hvar eru staðir fortíðar?
Staðir eins og Klúbburinn
sem var á FJÓRUM hæðum!
Sigtún - Tunglið - Borgin.....
það er víst af sem áður var.

Oh well.

Sat annars áðan og glósaði grimmt hjá mér,
þar sem ég horfði
á ungu "glöðu" konuna í sjónvarpinu.
Verð bráðum með þetta allt á hreinu
og get farið að vinna mér inn alvöru peninga.
og þegar ég verð rík
opna ég risa skemmtistað.

laugardagur, júní 07, 2008

Raunir 7

Júbbírallírei!


Út skal haldið............
Eina ferðina enn.
Veit ekki hvert –
en það eina sem við vinkonurnar vitum
er að það verður að vera nánast ókeypis.

Hvað ætli kvöldið beri í skauti sér?

Sló nokkra varnagla:

1.Rakaði ekki á mér leggina.
2.Fór ekki í sparibrók né haldara
3.Fór í sokkabuxur með gati.
4.Kæðist skóm sem eru svo gamlir
að það er komin táfýla í þá

Þetta ætti að garantera að ég kemst á séns
þar sem ég er alls ekki undir það búin.
Vantar bara að ég hafi á klæðum
en er í staðinn með egglos.
Hlýt því að gefa frá mér réttu lyktina.
Tjah.........
Kannski maður hitti bara draumaprinsinn?

At first I was afraid...........


Raunir 6

Ef það er eitthvað sem setur mig úr jafnvægi
þá er það að setjast við tölvuna mína
og ná ekki netsambandi.

Hausinn panikkar
ég fæ hjartsláttartruflanir
og pirringurinn stigmagnast
eftir því sem lengra líður,
án þess að tengingu sé náð.

Tel ég þetta stafa aðallega af því
að ég hef ekki hundsvit á græjunni
og kann því ekki að redda málunum sjálf.
Þooooli ekki að upplifa mig ósjálfbjarga.

Nú er ég ein af þeim
sem skipti á sínum tíma frá Símanum
yfir á Hive,
vegna þess hve hið fyrrnefnda stóð sig illa.
Voru það góð skipti.
Ekkert vesen á netinu fyrir utan eitt skipti
en þá reddaði glaðlyndur
og þjónustufús drengur með þolinmæði
mér á nó tæm.

Eftir að Hive sameinaðist öðrum
og til varð Tal (Aftur? Er það ekki eitthvað gamalt?)
... en ég var nota bene aldrei spurð
hvort ég væri samþykk breytingunum
eða hækkun á gjaldi þjónustunnar.....
hafa verið endalaus leiðinda tengivesen
og í gær var loks ekkert samband.

Ég hringdi í þjónustuverið
en það var lokað.
Hringdi því aftur strax í morgun
og óskaði eftir aðstoð.

Timbraður unglingur með málhelti
andaði þungt og þunnt í símann
og virtist ekkert geta gert fyrir mig.
Bað um að fá að hringja eftir 20 mínútur
hann "atlað a skoða dottli".

50 mínútur liðu og ekkert símtal.
Ég hringdi því aftur
Í þetta skiptið fæ ég fúllyndan dreng
sem greinilega finnst ekki gaman í vinnunni.

Hann sagði mér að pota í einhverjar snúrur
og tók svo til við að anda í símann eins og félagi hans.

Eftir nokkurn tíma
tilkynnir hann mér
að ég verði að fara með gamla ráterinn
og fá nýjan -
og sjá hvort þetta myndi ekki lagast.

Ertu ekki að djóka?

Ég spurði drenginn hvort það væri ekkert
sem ég gæti prófað heima
stimpla inn tölur -
ýta á einhvern link - eitthvað??

Neibb - bara fara með ráterinn niður í Síðumúla
og ef það virkar ekki -
þá gæti eitthvað verið að snúrunum.
"Ég veit ekki hvað er að"
hvæsti hann önugur.
(Eitthvað segir mér að drengurinn
eigi að fá sér aðra vinnu)

Dæs.

Ég þakkaði þó fyrir mig og lagði á.

Í þrjóskuröskun og mótþróa
ákvað ég nú að gefast ekki upp.
Ég var engan veginn að nenna
að drattast í einhverjar sendiferðir með box
sem að öllum líkindum
myndu ekki skila neinum árangri.
Sá fyrir mér mega vesen og bensíneyðslu.


Ég slökkti á ráternum - og kveikti aftur.

Blúbb!

Ég var nettengd.

Ætli það sé ekki kominn tími á önnur skipti?

fimmtudagur, júní 05, 2008

Raunir 5

Ég veit ekki hvort ég á að hlæja
eða gráta......
Akkúrat núna - er ég þó hlæjandi.
Ég hlæ og hlæ og hlæ.

Sko.............

Vinkona mín benti mér á tölvufítus
sem ég hafði aldrei kynnt mér
fyrir um það bil mánuði síðan.
Fítus sá kallast andlitsbók á íslensku.

Ég skráði mig þar
og allt í einu eru allir
og mamma hans líka
þar inni.

Mér fannst þetta sniðugt
og góð leið til að finna gamla vini
sér í lagi þá sem ég týndi í Ameríkunni
Það gekk líka eftir.
Fann fullt af fólki.
Frábært.

En fítusinn kom með óvæntum bónus.
Karlmenn í leit að konum.

Mér var sagt af góðum
og vel gefnum manni
að ég ætti að láta vaða
taka sénsa í samskiptamálum
og ég er jú svo hlýðin - eins og fram hefur komið
og gerði nákvæmlega það.

Lesblindu og fávitapakkinn hrynur inn.
Menn sem tala um stór brjóst
eins og þeir séu 16 ára
heimskir og barnalegir - óskrifandi menn
hrúga á mig illskiljanlegum komplimentum.
Boð um ýmis ósiðleg athæfi
(á slæmri íslensku)
giftir menn í ruglinu
og almenn aumingjalúsera samkoma.

Þetta er með ólíkindum.
Hvað er að þessum karlmönnum
og hvar eru þeir sem ekki eru þroskaheftir?????

Raunir 4

Sat og horfði með öðru auganu á Dynasty í gær.
Fannst fyndnast að ég skildi muna
eftir karakterum
og jafnvel nöfnum um leið og ég sá þau,
eða heyrði.

Man líka hvað okkur systkinunum
fannst Blake Carrington
alltaf líkur pabba,
eeeeef pabbi væri með grátt hár.....

HAHAHA!
Núna er gamli með hvítt hár
og lítið af því
en ekki lengur líkur Blake.

Mér fannst tískan dásamleg í þáttinum
og skemmti mér vel við að horfa á lúkkið.
Hárgreiðslurnar voru líka dúndur.

Það rifjaðist þó upp fyrir mér
að við vorum svo heppin á sínum tíma
því pabbi fékk alla þættina í einu á spólum
sem einhver félagi hans tók upp í útlandinu.

Því vorum við búin að horfa á allt dótið
og það í einum rikk
þegar það loks skilaði sér í sjónvarpið hér heima.
Gaman að því.

En þetta var skemmtilegt flashback
og ætli mér reiknist ekki til
að ég hafi verið svona 16 eða 17 ára
þegar Dynasty æðið gekk yfir.

Þá var ég ekki enn orðin feitabolla
og því alls ekki fyrrverandi.... svo
þessi færsla er svindl.

miðvikudagur, júní 04, 2008

Raunir 3

Uppfull af lífsþorsta og tilraunagleði ákvað ég að fara í réttir.
Ein fráleitasta hugmynd sem ég hef fengið en,
ég hafði jú aldrei upplifað alvöru réttir
þ.e.a.s. með útreið og öllu tilheyrandi

Er þeirri upplifun lýst eftirfarandi:

Vaknað klukkan 7:00 og skellt sér í reiðfötin.
Þá drukkinn sótsvartur kaffisopi í fleirtölu,
en lítið var í boði í formi morgunmatar annað en þurrt seríós.
Ég sagði pass.

Því næst voru reiðtygin gerð klár, druslast út í bíl og upp að bæ.
Þar biðu okkar vel feitir og illa til reika reiðskjótar
sem lagt var á í snatri,
en síðan riðið úr hlaði með stæl........eða kannski ekki alveg stæl,
frekar svona lull, prump, hott, hott og hoja.

Fljótlega kom í ljós að undir klárinn minn vantaði skeifu
og því ákveðið að stoppa á næsta bæ og redda málunum.
Eitthvað hafði víst farist fyrir
að athuga bikkjurnar kvöldið áður (!!!!)
Hlussast af baki og Ingjaldsfíflin hófust handa við að járna –
eitthvað fannst mér nú aðfarirnar óvandaðar og sloppy –
en hugsaði með mér að þetta væri nú stuttur túr
og ekkert til að hafa áhyggjur af,
skeifuhelvítið hlyti að halda.
Þetta væri víst bara svona í sveitinni.

Túrinn var að vísu ekkert svo stuttur
og varð á endanum tæpir þrír tímar.

Þegar við komum niður í réttir um kl: 11:00
var búið að draga nánast allar rollurnar í dilka
og sást nú varla í kindur fyrir fólki.
Sveitungar voru nú óðum að koma sér í stellingar fyrir sönginn,
en gamla var nú frekar spæld yfir að hafa misst af látunum.
Hafði þó nokkrar áhyggjur af aumingjans klárnum,
en gengið hafði á með ógurlegum skúrum alla leiðina
og gekk hann nú upp og niður eins og fýsibelgur,
enda ekki kannski alveg í formi fyrir svona langa ferð.

Eftir að hafa komið greyinu í girðingu og klappað ofurlítið
ákvað kerlingin nú samt að kynnast aðeins sveitarmenningunni
og stemningunni.
Var rölt um og heilsað upp á mann og annan
en þarna var allt morandi í skrítlingum og tannleysingjum,
sem göptu framan í myndavélar útlendinga og sungu
hver með sínu nefi.
Bókstaflega.
Verst fannst mér þó söngspírunni sjálfri að flest lögin
voru eldgamlir “lókal” slagarar
og enginn af yngri kynslóðinni virtist kunna þau,
en eitthvað var þó myndast við að gaula með
á milli þess sem var slegið í bakið á manni og boðið upp á sjúss
eða í nefið.

Loks þegar klukkan var að ganga tvö
var ákveðið að fara að ríða yppeftir
(hvað það þýddi hafði ég ekki hugmynd um).
Hófst þá leðjuslagur mikill við að reyna að ná hestunum að nýju.
Gerði svo miklar skúrir einmitt á því tímabili
að ég hef aldrei lent öðru eins.
Óðu þá allir, hestar og menn, drullu upp í nára
en hestarnir rennblautir og kaldir voru ekkert í stuði
til að fara að bera þessar fyllibyttur heim að bæjum.
Tókst þó að lokum að leggja á
og nú var haldið af stað heim að næsta bæ
þar sem ku bíða heit kjötsúpa og harmonikkuleikur.

Undirrituð hélt að þetta væri bara einhver spotti,
en það reyndist vera spölur.
Þar var stoppað, sopið og sungið.
En þetta var bara eitt stopp af mörgum.
Eftir þrjú slík og u.þ.b. fjögurra tíma reið í það heila,
(fyrir utan þessa þrjá um morguninn)
voru hestarnir hættir að hreyfa sig
nema það væri sparkað í þá stanslaust –

Allt orðið skeifulaust og vitlaust,
reiðmenn orðnir all-votir jafnt að innan sem utan,
veltandi af baki ofaní skurði,
hangandi skakkir í hnakknum og annað fínt.
Sumir klárarnir sprungu hreinlega á limminu
og varð að draga þá á handaflinu heim að endastöð.

Eftir endalaust kjötsúpuát, drykkju og “söng”
var loks haldið heim í hús
til að þvo sér og snyrta fyrir réttarballið.
Þá klukkan að ganga tíu um kvöldið.
Var þá kominn svo mikill kuldi í flesta
sem ekki höfðu sopið ríflega á brjóstbirtunni
að tilhugsunin um heitt bað og heita sæng
var mun meira freistandi
en ball með "sveiflukóngnum" Geirmundi Valtýs
ásamt tilheyrandi slagsmálum, ælu og gauragangi.

Gamla ákvað því að senda samferðarmenn á ball án hennar,
enda skjálftinn í kroppnum svo mikill
að tennurnar náðu ekki að hætta að glamra
fyrr en þremur dögum seinna.

Það var þreytt kona og lerkuð sem sofnaði óvært
á dýnuræfli og svefnpoka um ellefu leytið.

Morguninn eftir var mis hátt á mönnum risið.
Sumir voru helst til grænir á vangann,
aðrir sprækari enda ekki enn farnir að sofa,
en öllum illt í skrokknum.

Marblettir voru taldir, liðir hreyfðir
og komist að því að maður ætti best heima í góðu bóli
og því haldið heim á leið.

Það var krumpuð og bogin kona
sem staulaðist upp tröppurnar heima,
með rennblautan galla í plastpoka og skó sem höfðu séð betri daga.
Með stunum og æjum var skriðið upp í rúm
með íbúfen og vatnsglas
og augum lokað.


Það er alltaf gaman að prófa eitthvað nýtt -
en ég fór aldrei aftur.

þriðjudagur, júní 03, 2008

Raunir 2

Árið er ca 2002.
Ég er orðin grönn, glæsileg og einstök kona
og hef leyfi til að gera hvað sem ég vil.
Ok - næstum því hvað sem ég vil.
En.
Það þýðir að ég má t.d. kyssa nýja stráka
og jafnvel sofa hjá þeim ........ ef ég vil.

Ég þarf meira segja ekki að brölta með þá
heim til mömmu og pabba eins og í den.
Ég á mína eigin íbúð!
Býður upp á marga nýja möguleika.

Ekkert pukur, ekkert leynimakk
og ég þarf ekki að henda ræflinum út,
áður en gamli vaknar og fer fram að pissa.
(Assgoti hefur hún dóttir mín það gott)

Einnig var mér frjálst að gista þar sem mér sýndist
án þess að spyrja kóng né prests leyfis.
En...

What to do - what to do.....?
Ég er eins og krakki í nammibúð.

Það er einungis eitt lítið vandamál.
Ég er orðin pínu ryðguð
í viðreynslum og daðri og öðrum hlutum,
en fuss!
Er þetta ekki bara eins og að hjóla?
Setjast í hnakkinn og ..........
tjah - svipað.

Einnig er ég hálf-áttavilt varðandi aldur
þar sem að ég var síðast í þessum leikjum
í kringum 18 ára aldurinn,
en það er ekki um neitt annað að ræða,
en að láta vaða.
Skítt með þó að einstaka ungmenni lendi í valnum.
Ég þarf jú að vinna upp glataðan tíma.

Var þó einu sinni beðin um pening í strætó að morgni.
Það var eilítið óþægilegt.
Gott ef ég þurfti ekki að skeina honum líka.
Byrjendamistök.

Sumt var ljúft
annað - ekki svo ljúft.
Einhver snillingurinn taldi
að þegar í bólið væri komið
hæfist keppni í acrobatic
og stigakeppni í stellingarfræðum.
Hræðilegt.
Þar sem ég hentist um í loftköstum
og vissi engan vegin hvað sneri upp eða niður lengur
gat ég ekki annað en spurt sjálfa mig:
"Jahá, er það svona sem maður gerir þetta í dag?"
Hann fékk ekki símanúmerið.

Þetta árið var allnokkuð um ups and downs,
-pun intended-
og ég komst að dálitlu varðandi sjálfa mig.

Ég fíla ekki kynlíf með ókunnugum,
ég fíla ekki kynlíf án tilfinninga
og allt of margir karlmenn eru fávitar í rúminu.

Fyrst hélt ég að ég þyrfti bara að færa mig upp um aldur.
Þetta væri bara ungæðingsháttur
og reynsluleysi - en nei.
Oftar en ekki voru þeir eldri bara verri
og í ofanálag með barn í maganum
og stærri brjóst en ég.

Fattaði líka ekki hvatningargæjana
sem þurfa á við heilt stuðningslið til að hvetja þá til dáða
og sannfæra um hversu frábærir þeir eru
til að klára dæmið.
Hvílík sjálfselska.

Þetta ár hefur verið skjalfest
sem ár uppákoma
og er mér endalaus uppspretta hláturs.
Ég kom, ég sá - ég fór heim.

mánudagur, júní 02, 2008

Raunir fyrrverandi fitubollu

Þetta var frostaveturinn mikli árið 1998………
nei, hvaða bull er þetta - ég man ekkert hvernig veðrið var.
Líklegast bara þetta gamla og góða ekkert veður,
ásamt sér íslensku rugli inn á milli….

En það hefur ekkert með þessa sögu að gera.

Þennan ágæta vetur tók ég ákvörðun um að hætta að reykja.
Var það löngu orðið tímabært enda hálfkjánaleg iðja - ég meina -
norpandi undir vegg, sjúgandi reyk ofaní þig -
og borga morð fjár fyrir -
Rugl!

Eníhú.

Ég hætti sem sagt að reykja.
Þið vitið nú öll að það stendur einhversstaðar ritað
í heilagri bók...... sem EKKI lýgur -
að þeir sem hætta að reykja -
fitna alltaf um einhver ósköpin af kílóum. -
Alltaf.

Þar sem ég er svo hlýðin og fer ávallt eftir heilögum bókstaf -
tók ég nú að sjálfsögðu til við að fitna samviskusamlega.

Þetta gerðist samt ekkert svona einn tveir og þrír -
en smám saman mjökuðust á mig kílóin
á meðan ég brosti andfýlu og reyklaust framan í heiminn,
grandalaus um það sem ég var að gera skrokk mínum
með endalausu mauli og stjórnlausu áti.

Ég vissi jú og fann að fötin virtust obbó snolluð um rassinn.
Stundum þurfti ég líka að beita óþarflega miklum kröftum
við að koma brókunum upp um lærin og utan um kútinn.
Var það stundum svo - að eftir slagsmálin við gallabuxurnar
var ég svo rennsveitt og klístruð
að ég hefði þurft aðra sturtuferð þann morguninn.

Einnig átti baráttan til að enda í ósigri.
Ég lúffaði fyrir ofureflinu og lummaði mér í vinnuna í joggingdragt.
(Gerir svo mikið fyrir mann svona jerseyefni.)

Bolir og peysur voru einnig farnar að rúlla grunsamlega mikið upp fyrir nafla,
en kenndi ég þar að sjálfsögðu um helv…. þurrkaranum.
Ég meina - ég hafði ekkert að fitna það mikið….eða hvað?

Um aldamótin -
vá hvað er fyndið að segja þetta -
en ..... um aldamótin
áttaði ég mig á því, rétt rúmlega þrítugt unglamb -
að ég leit út fyrir að vera ósmekkleg kona að nálgast sextugaldurinn.
Klæðnaðurinn var orðinn....svo vægt sé til orða tekið,
heldur kellulegur -
enda fátt sem klæddi 85 kílóin á öllum mínum167 sentímetrum!

Jebb - 85 kíló.
Ég var orðin þyngri en þegar ég tékkaði mig inn á fæðingadeildina
með 5 kílóa barn í maganum og nóg af bjúg til að fylla baðkar.
Hafði að vísu ekki hugmynd um það, enda ekki stigið á vigt síðan........
ja það var langt síðan.

Þegar ég skoðaði jólamyndirnar
var ég alltaf að spyrja mig hver þessi feita kelling væri
sem var búin að troða sér inn á allar fjölskyldumyndirnar.

Ég ákvað að þetta væri orðið gott ………..og byrjaði aftur að reykja.
--

Ég er ekki að grínast!

En ekkert breyttist við þá frábæru ákvörðun
og ég áttaði mig á - að aðgerða var þörf.

Ég hafði heyrt um TT námskeiðin hjá JSB
og þegar ég sá auglýsingu um nýtt námskeið í janúar, sló ég til og skráði mig.

Það var frekar stressuð og vonlítil manneskja sem mætti á fyrsta stórfund.
Ég meina var ég virkilega orðin svo þung
að ég þyrfti að fara á námskeið til að megra mig?

Já, ég var greinilega ekki við stjórnina lengur og þurfti aðstoð.

Eftir fundinn var ég hinsvegar frekar vongóð,
matseðillinn var stúderaður og ekki var laust við að ég hlakkaði svolítið til.
Svolítið..........
Smá....

Daginn eftir mætti ég í tíma í gömlum gammósíum
og risastórum bómullarbol.
Ballið var byrjað.

Þegar ég læddist varlega upp á vigtina í fyrsta skipti
langaði mig helst til að gráta.
Þar sá ég loks sannleikann svart á hvítu
og það var sama hvað ég reyndi að telja mér trú um
að ég væri bara full af þungu lofti
eða að bolurinn sem ég klæddist væri úr blýi,
ég var orðin svona þung.

Nú hófst spriklið.
Guð minn góður. Ég hélt ég myndi deyja.
Hvað er hliðar kross? Hvað er eitt hné fram?
Það er ekki séns að ég fari með rassinn svona langt niður -
ég meina hvernig næ ég honum upp aftur??
Hvernig í fjandanum spennir maður kviðinn
á meðan maður hleypur lafmóður um.....
sígur maður hann inn eða....??

Rennsveitt, örmagna og vel rjóð í kinnum
skjögraði ég inn í sturtu og vissi varla hvort ég var að koma eða fara.
Garnirnar í mér gauluðu og reyndu að segja mér
að mér myndi líða betur ef ég skellti í mig eins og einni rækjusamloku,
maltflösku og Lion bar......
en ég er þrjósk kona og sagði þeim því að halda sér saman.

Það er illa fyrir manni komið
þegar maður er farinn að eiga samræður við magann í sér.

Vikurnar liðu,
ég svitnaði, ég grét,
ég átti morgna þar sem að líkaminn neitaði að verða við óskum um hreyfingu
og það tók mig stundum fimm mínútur að setjast á puntskálina vegna harðsperra.
En....no pain no gain...

Ég greip meira að segja eitt sinn sjálfa mig glóðvolga
og hálfsofandi um miðja nótt,
maulandi gamalt jólakonfekt í laumi - en slíkt gerði ég aldrei aftur -
eftir að kennarinn lét mig heyra það daginn eftir,
þegar ég reyndi að segja henni að ég hefði ekkert á samviskunni.

Ég missteig mig þó nokkrum sinnum,
enda bara mannleg,
en vegna áðurnefndar þrjósku tók ég alltaf "léttan dag.......a"..... í kjölfarið.

Það kom fyrir að ég gerði mér ekki grein fyrir
að ég hefði borðað eitthvað vitlaust
og horfði svo voða hissa á vigtina sem hafði skriðið upp um 3... 4...500 grömm,
en yfirleitt kom sökudólgurinn í ljós
þegar farið var að skoða málið.

Það sem er smátt -
inniheldur ekki endilega fáar kaloríur. (Fjandans Mozart kúlur!)

En árangurinn lét ekki á sér kræla.
Keppnisandinn í hópnum mínum var þvílíkur
að vorum við eins og lið á leið á Ólympíuleikana í megrun.
Frábær stuðningur þar.

Því betur sem mér gekk
því meira hlakkaði ég til að takast á við næsta dag
og undarlegt en satt mér fór að líða betur og betur.

Ég svaf vel, hafði meiri orku,
gat gengið upp tröppur án þess að æla
og var hætt að grenja eftir tíma.
Í raun var svo komið að ég gat ekki hugsað mér að sleppa úr æfingu
og mig langaði í gulrætur!

Einnig átti stíllinn hjá JSb og allur dansgrunnurinn í æfingunum þar vel við mig
þar sem ég hafði verið mikið viðriðin dans á yngri árum
og þótti liðtæk diskódíva og freestyle spútnik hér áður fyrr.

Kílóin hrundu af mér og eftir fyrsta námskeið skráði ég mig á annað.

Þegar hér var komið var ég í smá vandræðum varðandi fatnað,
þar sem að ekkert virtist passa á mig lengur.
Bára var ekki lengi að redda því.
“ Hvað er þetta manneskja, áttu ekki skilið að fá þér eitthvað fínt? “
Þessi setning var notuð óspart við kortastraujanir..

Eftir tvö námskeið var ég búin að skafa af mér 22 kíló og leit betur út en nokkru sinni áður.
Ég keypti mér opið kort og hélt mér í horfinu.

Hver hefði trúað því í janúar 2000 að ég myndi enda þarna sem kennari,
en það hefði nú heldur ekki virkað nema vegna þess að ég small vel inn í hópinn
og hafði dansþjálfun frá fyrri tíð.

Ef þessu prógrammi er fylgt - það þýðir að fara eftir því sem þér er sagt -
get ég lofað árangri - ég er lifandi dæmi.
En ef illa gengur - skal þó enginn reyna að horfa á mig
með sakleysi í augum og segja mér að þeir hafir ekkert á samviskunni.

Ég hef líka setið á náttbuxunum um miðja nótt
troðandi einhverjur óskunda í munngatið á mér,
teljandi mér trú um að ég væri að vera góð við mig.
Ég þekki öll trikkin í bókinni.