mánudagur, júní 09, 2008

Raunir 9

Skellti mér á minningartónleika
Árna Scheving djassista,
en gillið var haldið á Hótel Sögu í gærkveldi.

Það var svo pakkað að á endanum var selt í stæði.
Bara eins og á fótboltavellinum.

Ég var svo sein að ákveða mig
að þegar ég mætti á kantinn
var komin löng röð, sem ég að sjálfsögðu plantaði mér í.
Það var nokkuð ljóst
að elliheimilin höfðu planað útivistardag
enda flestir vel yfir sextugt
og frekjan í röðinni í takt við það.

Ilmvatnsangandi eldri konur með lagt hár
tróðu sér ítrekað framfyrir mig
(af hverju segir enginn þessum konum
að ilmvatn rennur út?)
og ég reyndi ítrekað
að sýna móðgun mína á penan hátt,
senda svipi, ræskja mig....
en þær tóku ekkert eftir því
og héldu áfram að troðast.
Karlarnir héngu hinsvegar pokalegir undir vegg
greinilegt að kellurnar hafa peningaumráðin.

Þegar ég heyrði út undan mér
að það væri orðið uppselt,
gerðist ég hins vegar grimm.
Ég ýtti með olnbogum og sagði hátt og skýrt:
"Það er nú óþarfi að vera með dónaskap
og troðast framfyrir fólk"
en ég fékk bara heyrnarlausan þóttasvip frá frúnum.
Augnablik sá ég fyrir mér skrítinn kvennaslag,
en lét það eiga sig.
Lenti því að lokum í áðurnefndu stæði.

Gamla liðið hrúgaðist nú á barinn og keypti tvöfalda -
ég náði mér í vatnsglas og kom mér fyrir úti í horni.

Eitthvað fannst mér nú þetta allt ódjasslegt eitthvað.
Til að hlusta á djass, á maður helst að vera ofan í kjallara
á lítilli, reykmettaðri búllu, með rauðvín og nálægð.
Nóg var nú nálægðin þarna
en bara ekki á réttum forsendum.
Það tapast bara einhver stemmning
þegar þú stendur einn upp á endann
í Súlnasal Sögu og sérð ekki einu sinni músíkantana

Tónlistin var þó flott og vel flutt
enda fullt af snillingum þarna samankomnir.
Ég gat alveg gert dúfuna.

Ég sá líka fullt af frægu fólki
og heilsaði þeim að sjálfsögðu öllum innilega
og skemmti mér því næst yfir
hversu ráðvillt það varð á svip
þegar það reyndi að rifja upp hver ég væri.

6 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

hehe, gottáða :D

12:45 e.h.  
Blogger Ameríkufari segir fréttir said...

skammist þeir sín að muna ekki eftir þér.

1:15 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Mér hryllir við tilhugsunina um ilm fýluna af þessum kellum. Og hvernig stendur eiginlega á því að við erum ekki að fara á "menningarviðburði" saman? jémeinaða!

9:45 f.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Að spila með kvennakór sem hefur úðað á sig MÖRGUM tegundum af ilmvötnum verður að fýlu. Skil þig, en ekki freku kjellurnar. Í raun er hallærislegt að bjóða fólki uppá "stand", frekar ætti að blása til tvenna tónleika. Ærin var ástæðan. Kær kveðja. Gulla Hestnes

10:00 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

hehehe liðið enn að pæla - HVER var þetta?

11:55 f.h.  
Blogger Blinda said...

I'm bad......... ;-)

6:13 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home