miðvikudagur, júní 04, 2008

Raunir 3

Uppfull af lífsþorsta og tilraunagleði ákvað ég að fara í réttir.
Ein fráleitasta hugmynd sem ég hef fengið en,
ég hafði jú aldrei upplifað alvöru réttir
þ.e.a.s. með útreið og öllu tilheyrandi

Er þeirri upplifun lýst eftirfarandi:

Vaknað klukkan 7:00 og skellt sér í reiðfötin.
Þá drukkinn sótsvartur kaffisopi í fleirtölu,
en lítið var í boði í formi morgunmatar annað en þurrt seríós.
Ég sagði pass.

Því næst voru reiðtygin gerð klár, druslast út í bíl og upp að bæ.
Þar biðu okkar vel feitir og illa til reika reiðskjótar
sem lagt var á í snatri,
en síðan riðið úr hlaði með stæl........eða kannski ekki alveg stæl,
frekar svona lull, prump, hott, hott og hoja.

Fljótlega kom í ljós að undir klárinn minn vantaði skeifu
og því ákveðið að stoppa á næsta bæ og redda málunum.
Eitthvað hafði víst farist fyrir
að athuga bikkjurnar kvöldið áður (!!!!)
Hlussast af baki og Ingjaldsfíflin hófust handa við að járna –
eitthvað fannst mér nú aðfarirnar óvandaðar og sloppy –
en hugsaði með mér að þetta væri nú stuttur túr
og ekkert til að hafa áhyggjur af,
skeifuhelvítið hlyti að halda.
Þetta væri víst bara svona í sveitinni.

Túrinn var að vísu ekkert svo stuttur
og varð á endanum tæpir þrír tímar.

Þegar við komum niður í réttir um kl: 11:00
var búið að draga nánast allar rollurnar í dilka
og sást nú varla í kindur fyrir fólki.
Sveitungar voru nú óðum að koma sér í stellingar fyrir sönginn,
en gamla var nú frekar spæld yfir að hafa misst af látunum.
Hafði þó nokkrar áhyggjur af aumingjans klárnum,
en gengið hafði á með ógurlegum skúrum alla leiðina
og gekk hann nú upp og niður eins og fýsibelgur,
enda ekki kannski alveg í formi fyrir svona langa ferð.

Eftir að hafa komið greyinu í girðingu og klappað ofurlítið
ákvað kerlingin nú samt að kynnast aðeins sveitarmenningunni
og stemningunni.
Var rölt um og heilsað upp á mann og annan
en þarna var allt morandi í skrítlingum og tannleysingjum,
sem göptu framan í myndavélar útlendinga og sungu
hver með sínu nefi.
Bókstaflega.
Verst fannst mér þó söngspírunni sjálfri að flest lögin
voru eldgamlir “lókal” slagarar
og enginn af yngri kynslóðinni virtist kunna þau,
en eitthvað var þó myndast við að gaula með
á milli þess sem var slegið í bakið á manni og boðið upp á sjúss
eða í nefið.

Loks þegar klukkan var að ganga tvö
var ákveðið að fara að ríða yppeftir
(hvað það þýddi hafði ég ekki hugmynd um).
Hófst þá leðjuslagur mikill við að reyna að ná hestunum að nýju.
Gerði svo miklar skúrir einmitt á því tímabili
að ég hef aldrei lent öðru eins.
Óðu þá allir, hestar og menn, drullu upp í nára
en hestarnir rennblautir og kaldir voru ekkert í stuði
til að fara að bera þessar fyllibyttur heim að bæjum.
Tókst þó að lokum að leggja á
og nú var haldið af stað heim að næsta bæ
þar sem ku bíða heit kjötsúpa og harmonikkuleikur.

Undirrituð hélt að þetta væri bara einhver spotti,
en það reyndist vera spölur.
Þar var stoppað, sopið og sungið.
En þetta var bara eitt stopp af mörgum.
Eftir þrjú slík og u.þ.b. fjögurra tíma reið í það heila,
(fyrir utan þessa þrjá um morguninn)
voru hestarnir hættir að hreyfa sig
nema það væri sparkað í þá stanslaust –

Allt orðið skeifulaust og vitlaust,
reiðmenn orðnir all-votir jafnt að innan sem utan,
veltandi af baki ofaní skurði,
hangandi skakkir í hnakknum og annað fínt.
Sumir klárarnir sprungu hreinlega á limminu
og varð að draga þá á handaflinu heim að endastöð.

Eftir endalaust kjötsúpuát, drykkju og “söng”
var loks haldið heim í hús
til að þvo sér og snyrta fyrir réttarballið.
Þá klukkan að ganga tíu um kvöldið.
Var þá kominn svo mikill kuldi í flesta
sem ekki höfðu sopið ríflega á brjóstbirtunni
að tilhugsunin um heitt bað og heita sæng
var mun meira freistandi
en ball með "sveiflukóngnum" Geirmundi Valtýs
ásamt tilheyrandi slagsmálum, ælu og gauragangi.

Gamla ákvað því að senda samferðarmenn á ball án hennar,
enda skjálftinn í kroppnum svo mikill
að tennurnar náðu ekki að hætta að glamra
fyrr en þremur dögum seinna.

Það var þreytt kona og lerkuð sem sofnaði óvært
á dýnuræfli og svefnpoka um ellefu leytið.

Morguninn eftir var mis hátt á mönnum risið.
Sumir voru helst til grænir á vangann,
aðrir sprækari enda ekki enn farnir að sofa,
en öllum illt í skrokknum.

Marblettir voru taldir, liðir hreyfðir
og komist að því að maður ætti best heima í góðu bóli
og því haldið heim á leið.

Það var krumpuð og bogin kona
sem staulaðist upp tröppurnar heima,
með rennblautan galla í plastpoka og skó sem höfðu séð betri daga.
Með stunum og æjum var skriðið upp í rúm
með íbúfen og vatnsglas
og augum lokað.


Það er alltaf gaman að prófa eitthvað nýtt -
en ég fór aldrei aftur.

5 Comments:

Blogger Ameríkufari segir fréttir said...

..hæ hó hæ hó harmonikkan dynur...:)

7:27 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Hvaða hvaða! Yndislegt í réttum, reyndar ekki kindaréttum! Ég fór eitt sinn með malbiksbykkjuna mína og hann hlammaðist ofan í metersdjúpan pitt með rassgatið og ég hélt áfram að hvetja þangað til að lappirnar voru fastar (var ekki nógu fljótur fattarinn) og þá hófst mikið vesen að ná greyinu upp og hjálpaði mér haugafullur gamall bóndi, loks náðist klárinn upp og ég hélt reið áfram, svo reið ég framhjá haugafulla bóndanum aftur og hann fussaði og sveiaði yfir því að fólk væri að mæta með haugskítuga hesta í rekstur, subbuskapur þetta væri !! :)

10:35 f.h.  
Blogger Meðalmaðurinn said...

Vá hvað ég er ekki nógu mikil útivistarmanneskja til að hafa húmor fyrir svona ævintýri. Ég mundi ekki bara skjálfa í þrjá daga á eftir - heldur líka vera í fýlu í þrjár vikur minnst!

1:29 e.h.  
Blogger Blinda said...

Haha - einmitt Íris. Svona var ástandið.

Jújú... maður verður að hafa húmor fyrir allri vitleysunni og það tekur því ekkert að fara í fýlu - það eina sem gerist er að maður verður fúll - og hverjum gagnast það?

1:38 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

hahaha - djös ræfill að meika ekki ballið!

1:01 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home