mánudagur, júní 02, 2008

Raunir fyrrverandi fitubollu

Þetta var frostaveturinn mikli árið 1998………
nei, hvaða bull er þetta - ég man ekkert hvernig veðrið var.
Líklegast bara þetta gamla og góða ekkert veður,
ásamt sér íslensku rugli inn á milli….

En það hefur ekkert með þessa sögu að gera.

Þennan ágæta vetur tók ég ákvörðun um að hætta að reykja.
Var það löngu orðið tímabært enda hálfkjánaleg iðja - ég meina -
norpandi undir vegg, sjúgandi reyk ofaní þig -
og borga morð fjár fyrir -
Rugl!

Eníhú.

Ég hætti sem sagt að reykja.
Þið vitið nú öll að það stendur einhversstaðar ritað
í heilagri bók...... sem EKKI lýgur -
að þeir sem hætta að reykja -
fitna alltaf um einhver ósköpin af kílóum. -
Alltaf.

Þar sem ég er svo hlýðin og fer ávallt eftir heilögum bókstaf -
tók ég nú að sjálfsögðu til við að fitna samviskusamlega.

Þetta gerðist samt ekkert svona einn tveir og þrír -
en smám saman mjökuðust á mig kílóin
á meðan ég brosti andfýlu og reyklaust framan í heiminn,
grandalaus um það sem ég var að gera skrokk mínum
með endalausu mauli og stjórnlausu áti.

Ég vissi jú og fann að fötin virtust obbó snolluð um rassinn.
Stundum þurfti ég líka að beita óþarflega miklum kröftum
við að koma brókunum upp um lærin og utan um kútinn.
Var það stundum svo - að eftir slagsmálin við gallabuxurnar
var ég svo rennsveitt og klístruð
að ég hefði þurft aðra sturtuferð þann morguninn.

Einnig átti baráttan til að enda í ósigri.
Ég lúffaði fyrir ofureflinu og lummaði mér í vinnuna í joggingdragt.
(Gerir svo mikið fyrir mann svona jerseyefni.)

Bolir og peysur voru einnig farnar að rúlla grunsamlega mikið upp fyrir nafla,
en kenndi ég þar að sjálfsögðu um helv…. þurrkaranum.
Ég meina - ég hafði ekkert að fitna það mikið….eða hvað?

Um aldamótin -
vá hvað er fyndið að segja þetta -
en ..... um aldamótin
áttaði ég mig á því, rétt rúmlega þrítugt unglamb -
að ég leit út fyrir að vera ósmekkleg kona að nálgast sextugaldurinn.
Klæðnaðurinn var orðinn....svo vægt sé til orða tekið,
heldur kellulegur -
enda fátt sem klæddi 85 kílóin á öllum mínum167 sentímetrum!

Jebb - 85 kíló.
Ég var orðin þyngri en þegar ég tékkaði mig inn á fæðingadeildina
með 5 kílóa barn í maganum og nóg af bjúg til að fylla baðkar.
Hafði að vísu ekki hugmynd um það, enda ekki stigið á vigt síðan........
ja það var langt síðan.

Þegar ég skoðaði jólamyndirnar
var ég alltaf að spyrja mig hver þessi feita kelling væri
sem var búin að troða sér inn á allar fjölskyldumyndirnar.

Ég ákvað að þetta væri orðið gott ………..og byrjaði aftur að reykja.
--

Ég er ekki að grínast!

En ekkert breyttist við þá frábæru ákvörðun
og ég áttaði mig á - að aðgerða var þörf.

Ég hafði heyrt um TT námskeiðin hjá JSB
og þegar ég sá auglýsingu um nýtt námskeið í janúar, sló ég til og skráði mig.

Það var frekar stressuð og vonlítil manneskja sem mætti á fyrsta stórfund.
Ég meina var ég virkilega orðin svo þung
að ég þyrfti að fara á námskeið til að megra mig?

Já, ég var greinilega ekki við stjórnina lengur og þurfti aðstoð.

Eftir fundinn var ég hinsvegar frekar vongóð,
matseðillinn var stúderaður og ekki var laust við að ég hlakkaði svolítið til.
Svolítið..........
Smá....

Daginn eftir mætti ég í tíma í gömlum gammósíum
og risastórum bómullarbol.
Ballið var byrjað.

Þegar ég læddist varlega upp á vigtina í fyrsta skipti
langaði mig helst til að gráta.
Þar sá ég loks sannleikann svart á hvítu
og það var sama hvað ég reyndi að telja mér trú um
að ég væri bara full af þungu lofti
eða að bolurinn sem ég klæddist væri úr blýi,
ég var orðin svona þung.

Nú hófst spriklið.
Guð minn góður. Ég hélt ég myndi deyja.
Hvað er hliðar kross? Hvað er eitt hné fram?
Það er ekki séns að ég fari með rassinn svona langt niður -
ég meina hvernig næ ég honum upp aftur??
Hvernig í fjandanum spennir maður kviðinn
á meðan maður hleypur lafmóður um.....
sígur maður hann inn eða....??

Rennsveitt, örmagna og vel rjóð í kinnum
skjögraði ég inn í sturtu og vissi varla hvort ég var að koma eða fara.
Garnirnar í mér gauluðu og reyndu að segja mér
að mér myndi líða betur ef ég skellti í mig eins og einni rækjusamloku,
maltflösku og Lion bar......
en ég er þrjósk kona og sagði þeim því að halda sér saman.

Það er illa fyrir manni komið
þegar maður er farinn að eiga samræður við magann í sér.

Vikurnar liðu,
ég svitnaði, ég grét,
ég átti morgna þar sem að líkaminn neitaði að verða við óskum um hreyfingu
og það tók mig stundum fimm mínútur að setjast á puntskálina vegna harðsperra.
En....no pain no gain...

Ég greip meira að segja eitt sinn sjálfa mig glóðvolga
og hálfsofandi um miðja nótt,
maulandi gamalt jólakonfekt í laumi - en slíkt gerði ég aldrei aftur -
eftir að kennarinn lét mig heyra það daginn eftir,
þegar ég reyndi að segja henni að ég hefði ekkert á samviskunni.

Ég missteig mig þó nokkrum sinnum,
enda bara mannleg,
en vegna áðurnefndar þrjósku tók ég alltaf "léttan dag.......a"..... í kjölfarið.

Það kom fyrir að ég gerði mér ekki grein fyrir
að ég hefði borðað eitthvað vitlaust
og horfði svo voða hissa á vigtina sem hafði skriðið upp um 3... 4...500 grömm,
en yfirleitt kom sökudólgurinn í ljós
þegar farið var að skoða málið.

Það sem er smátt -
inniheldur ekki endilega fáar kaloríur. (Fjandans Mozart kúlur!)

En árangurinn lét ekki á sér kræla.
Keppnisandinn í hópnum mínum var þvílíkur
að vorum við eins og lið á leið á Ólympíuleikana í megrun.
Frábær stuðningur þar.

Því betur sem mér gekk
því meira hlakkaði ég til að takast á við næsta dag
og undarlegt en satt mér fór að líða betur og betur.

Ég svaf vel, hafði meiri orku,
gat gengið upp tröppur án þess að æla
og var hætt að grenja eftir tíma.
Í raun var svo komið að ég gat ekki hugsað mér að sleppa úr æfingu
og mig langaði í gulrætur!

Einnig átti stíllinn hjá JSb og allur dansgrunnurinn í æfingunum þar vel við mig
þar sem ég hafði verið mikið viðriðin dans á yngri árum
og þótti liðtæk diskódíva og freestyle spútnik hér áður fyrr.

Kílóin hrundu af mér og eftir fyrsta námskeið skráði ég mig á annað.

Þegar hér var komið var ég í smá vandræðum varðandi fatnað,
þar sem að ekkert virtist passa á mig lengur.
Bára var ekki lengi að redda því.
“ Hvað er þetta manneskja, áttu ekki skilið að fá þér eitthvað fínt? “
Þessi setning var notuð óspart við kortastraujanir..

Eftir tvö námskeið var ég búin að skafa af mér 22 kíló og leit betur út en nokkru sinni áður.
Ég keypti mér opið kort og hélt mér í horfinu.

Hver hefði trúað því í janúar 2000 að ég myndi enda þarna sem kennari,
en það hefði nú heldur ekki virkað nema vegna þess að ég small vel inn í hópinn
og hafði dansþjálfun frá fyrri tíð.

Ef þessu prógrammi er fylgt - það þýðir að fara eftir því sem þér er sagt -
get ég lofað árangri - ég er lifandi dæmi.
En ef illa gengur - skal þó enginn reyna að horfa á mig
með sakleysi í augum og segja mér að þeir hafir ekkert á samviskunni.

Ég hef líka setið á náttbuxunum um miðja nótt
troðandi einhverjur óskunda í munngatið á mér,
teljandi mér trú um að ég væri að vera góð við mig.
Ég þekki öll trikkin í bókinni.

9 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Ég segi "flott hjá þér", en gulrætur nenni ég ekki að maula! Það er svo skrítið með mig að ég borða til að halda lífi, og sætindi eru súr í mínum munni. Þessu er misskipt mín kæra, en haltu áfram að hjálpa fólki sem þarf þín með. Ef þú ert að kenna með Margréti Arnþórsdóttur bið ég kærlega að heilsa henni. Gulla Hestnes

9:53 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Hey kjútí! Hjartanlega sammála. Frábær kennari og í algeru uppáhaldi sérstaklega þegar ég kúka ;)

10:57 e.h.  
Blogger Blinda said...

Það sem virkar - virkar :-) Magga er hætt að vinna hjá okkur en kemur alltaf reglulega - skila kveðjunni ;-)

Íris - þú ert elska - og FÁVITI!

11:56 e.h.  
Blogger Guðjón Viðar said...

Ég er ekki frá því að vissar áherslubreytningar hafi átt sér stað í myndavali og efni:)

2:30 e.h.  
Blogger Meðalmaðurinn said...

Held svei mér að ég hafi tekið eftir þessu líka - bíð spennt eftir framhaldinu...

2:34 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Er ég þá elskandi fáviti? Það eru sko aldeilis ekki slæm örlög !! ;P

7:03 e.h.  
Blogger Blinda said...

Jebb - og yndislegur elskulegur fáviti - best í heimi :-)

8:25 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Ég skóf af mér 16 kíló hjá Báru, þau tóku mig um 4 ár að koma aftur - með stæl, ég vildi óska þess að ég hefði náð að láta mér þykja þetta skemmtilegt en ég tók út fyrir hvern tíma og svo er ég alveg skelfilega mikill sælkeri.

Kudos til þín bara, flotta!

8:25 f.h.  
Blogger Blinda said...

Guðjón og meðalmaður - hvað eruð þið að tala um???? ;-)

Takk Hildigunnur mín en to each his own. Maður á ekki að gera neitt sem mann langar ekki til að gera og alls ekki eitthvað sem manni leiðist :-)

4:04 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home