miðvikudagur, júní 18, 2008

Raunir 14

Það er alltaf svo ljómandi skemmtilegt að verða sér til skammar.

Ég er snillingur í því.

Ef ég er ekki með fótinn í munninum er ég búin að gera einhvern óskunda - alveg óvart auðvitað - en óskunda engu að síður.

Í gær var mín virðulegur kynnir á þjóðhátíðarskemmtun Seltjarnarnesbúa......eða..... við skulum umorða þetta. Í gær ÁTTI ég að vera virðulegur kynnir..... en þar sem að mitt litla sjálf hefur aldrei lært almennilega á þetta orð: virðulegt - varð lítið um fína drætti. Það er svo asskoti merkilegt, en venjulega get ég bullað á við fjóra fyrir framan fólk - blaðalaust - og er sjaldan kjaftstopp. Mismæli eru líka sjaldgæf, nema ég ætli mér að gera það til grínauka og gleði. En þó er það svo - að ef míkrófón er troðið í andlitið á mér þá einhvernveginn frýs allt.
Ég fer í annarlegt ástand.

Þannig að:

Fyrir utan að ég var með opna buxnaklauf í gegnum alla skemmtunina í gær, þá sagði ég einu sinni "góðan dag" í staðinn fyrir "gjörið svo vel". Kynnti atriði sem var búið, endurskírði sirkushópinn, gleymdi unglingunum og BAUÐ öllum í kaffi í félagsheimilinu.
Þetta gerði ég allt saman með bros á vör og grettið fés, þar sem ég sá ekki rassgat allan tíman því blessuð sólin skein beint í augun á mér.
Stóð mig sem sagt með mikilli prýði.

Nú þarf ég að athuga hvort að ég fái ekki örugglega borgað,
þrátt fyrir smá klúður.

Endaði daginn þó á léttum nótum. Settist með afmælisbarninu á kaffihús í sólinni og naut þess að vera Íslendingur í góðu veðri á 17. júní. Eitt fannst okkur samt skrítið. Höfðum stefnt á Jómfrúna til að fá smörrebröd og öl í fallega garðinum þeirra, en þá var bara lokað! Þjóðhátíðardagur - bærinn fullur af fólki - geggjað veður og þeir loka! getur ekki verið gott fyrir bissnessinn. Við fundum þó annan sælureit og öl - en ekkert smörrebröd -
Oh well - maður getur ekki fengið allt í lífinu.

6 Comments:

Blogger Ameríkufari segir fréttir said...

Ég gat nú ekki nema brosað..góðan daginn virkar vel sem gjörið þið svo vel og alltaf gaman að bjóða einhverjum upp á það sem er ekki ókeypis. Hefurðu nokkuð heyrt af slagsmálum eftir að fólkið fattaði að ekki var allt frítt? Ef ekki þá færðu pottþétt borgað!:)

12:53 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Þú hefur staðið þið glæsilega. Parísardaman.

5:43 f.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

kva! var þetta ekki bara töff?

8:18 f.h.  
Blogger Blinda said...

Jú þetta var bara töff og enginn tók eftir þessu. Fæ borgað ;-)

9:42 f.h.  
Blogger Syngibjörg said...

auðvita færðu borgað -manneskja með próf og alles, skárra væri það nú.
Kom aaaaðeins og seint á Nesið og missit af þér en ég hitti Nillu:O)

10:43 e.h.  
Blogger Blinda said...

Æ, en leiðinlegt Syngibjörg - hefði verið að gaman að sjá þig - en þú hittir þó "litlu sys" :-)

7:17 f.h.  

Skrifa ummæli

<< Home