miðvikudagur, desember 31, 2008

Gledilegt ar elskurnar!

laugardagur, desember 27, 2008

Jolagledi

Er buin ad eiga yndisleg jol i Kaupmannahofn.
Mer lidur svo vel i thessari borg,
sem er svo afsloppud
ad medan ad Islendingar
eru med opnar budir allan solarhringinn,
er allt lokad I køben i thrja daga.
Dasamlegt.

Er buin ad borda danska ond
sem rann ljuft nidur,
fullt ad smørrebraudi og sukkuladi,
auk thess sem eg er nu hooked
a akvedinni nudlusupu her i bæ

Fekk godar og fallegar gjafir,
bækur, geilsdisk, nattkjol og trefil
og mer hefur verid strokid,
eg kysst og dekrud endalaust
og ekki er thad buid enn.
Verst ad eg tharf ad fara aftur heim.....
en ekki alveg strax (sem betur fer).

Eg er buin ad hjola um allt
eins og sidast thegar eg var her
og alltaf er eg ad sja eitthvad nytt.

Det er dejligt

Thakka allar godar kvedjur
og vona ad thid seud oll i godum gir.
KNUUUUUUUUUUUUUUS.

mánudagur, desember 22, 2008


ÉG ÓSKA YKKUR ÖLLUM

GLEÐILEGRAR HÁTÍÐAR.


MEGI GÆFA OG GLEÐI

FYLGJA YKKUR Á NÝJU ÁRI.


föstudagur, desember 19, 2008

Jólaraunir

Hér er enginn jólailmur
og lítið um jólaskap.
Nokkrar ljósatuðrur
og 3 pakkaræflar handa nánustu.

En það reddast allt á þriðjudaginn
þegar ég fer af landi brott
í jól sem eru tilbúin fyrir mig
í kóngsins köben.

Er ekkert viss um að ég komi til baka
á þetta guðsvolaða skítasker
glæpa og spillingar.

Set kannski bara lykilinn í póstkassann.
Hver veit?

sunnudagur, desember 14, 2008

Raunir 92

Þar sem ég skrölti inn í Bónus,
í minni heimabyggð - Kringlunni,
til að versla mér uppþvottalög
og klósettpappír á uppsprengdu verði,
gat ég ekki séð að Íslendingar
væru í miðri kreppu.

Það var troðfullt af fólki
og allir að versla og versla -
ekki bara að glápa og toga.

Ég verð að viðurkenna að ég var frekar hissa.
Er sjálf búin að gera samning við fjölskyldu og vini.

Þegar ég kom heim tilkynnti ég svo unglingnum
að það sé ekki í boði lengur
að nota tappa, bindi og rakvélablöð á þessu heimili.
Ég einfaldlega neita að borga svona mikið fyrir þessar vörur.
Ég meina þetta er bara rugl!

Hér verða því kvenmenn heimilsins
loðnir um allar trissur
og vindandi ullarlagða í vaskinum mánaðarlega.

fimmtudagur, desember 11, 2008

Raunir 91

Í "gamla daga"
hefði veðrið í kvöld
verið snjóstormur.........
Það væri rafmagnslaust
og á morgun væri enginn skóli.

Aaaaaaaaaah
the good old days.

mánudagur, desember 08, 2008

Raunir 90

Eftir draumfarir næturinnar
er ég nú fullviss um
að ég er alvarlega truflaður einstaklingur.

Sit svo bara og klóra mér í hausnum.

sunnudagur, desember 07, 2008

Raunir 89

Í dag fór ég í leik.
Leikurinn gekk út á það
að láta sem ekkert sé..........

Ég fór inn í búðir
sem ég fer ALDREI inn í.
Mátaði grimmt
og skoðaði og togaði
spurði og vesenaðist,
en keypti ekki neitt.

Mitt hégómlegas sjálf
skemmti sér ágætlega við þessa iðju
( eins og þegar ég sérpantaði flygilinn hjá dónalegu sölukonunni um árið)

Ég er viss um að þetta er eitthvað svona konu - eitthvað
en þetta virkaði sem plástur á sálina.

laugardagur, desember 06, 2008

Raunir 88

Jarðskjálfti?
Ragnarök?

miðvikudagur, desember 03, 2008

Raunir 87

Ég er ekki stolt af því
en verð samt að viðurkenna
að þekking mín á fjármálum
er til háborinnar skammar.

Ég er viðurkenndur hálviti
þegar kemur að fjármálum.

Samt hef ég náð að halda mér nokkurn veginn réttum megin
alla mína fullorðinstíð.
Aldrei lent í stórkostlegum skítamálum
og alltaf borgað reikningana mína.
Þar kemur til bara almenn skynsemi og sparsemi.

Vegna þessa, fór ég því yfirleitt að ráðum þeirra
sem vinna við fjármál og þessháttar
og treysti því að þeir vissu betur en ég í ákvarðanatökum.

Það var því einfaldlega gunguskapur og níska
sem bjargaði mér frá því að breyta lánunum mínum á sínum tíma
til þess að fá extra skotsilfur til að eyða í vitleysu.
Það sem ég er feginn í dag!

Hins vegar ...........
Þegar ég keypti fyrsta bílinn sem ég hef keypt sjálf um ævina
treysti ég sölumanninum fullkomnlega
til að gefa mér ráð um hvað væri best fyrir mig að gera.

Maðurinn talaði um eitthvað myntkörfulán
sem ég satt að segja hafði ekki hugmynd um hvað var.
En hann sagði að það væri besti kosturinn fyrir mig,
svo ég skrifaði undir.

Ég tók þó skýrt fram að ég vildi ekki bíl
sem kostaði meira en milljón
og ég gæti einungis ráðið við ca 15.000 krónur í afborgun á mánuði.
Ég hins vegar tók tilboði um bíl á 1,2 milljónir
og afborgun upp á 18.000 (lét sannfærast)
en sagði honum að þá væri ég nærri því að sprengja budduna
og ég gæti engan veginn farið hærra en það.

Núna kostar bíllinn minn 2,3 milljónir
og afborgunin er 42.000 á mánuði.
Samdi ég um það?

Mér er sagt að þetta sé mér að kenna
því ég skrifaði undir lánið.

Tók ég 2,3 milljón króna lán?
Nei.
Sagði ég að ég gæti borgað 42.000 á mánuði?
Nei.
Var útskýrt fyrir mér hvað myntkörfulán þýðir?
Nei.
Sá almenningur þetta ástand fyrir, fyrir ári síðan?
Nei.

Hvers vegna er mér þá skilt að borga þetta?

Vegna þess að ég er fávís kona sem treysti því
að sá sem hún var að versla við
myndi veita henni góða ráðgjöf
og segja henni satt og rétt frá.
Þar liggur minn glæpur.

Gaman að þessu.

þriðjudagur, desember 02, 2008

Raunir 86

Skilur liðið ekki
að við viljum ekki að sama fólkið
sem kom okkur í þessa stöðu
hafi það hlutverk að koma okkur úr henni?

Skilur það ekki að því er ekki treystandi
vegna þess að það einfaldlega svaf á verðinum
og klúðraði öllu saman?

Ég verð svo dolfallin þegar ég hlusta á liðið
tala um mótvind og snjóskafla........
Hvað er að þessu pakki????

Þetta er svo óafsakanlegt að ég stend stundum á garginu!

En........
þeim tókst þetta í Thailandi
hvers vegna getum við ekki lufsast til að standa saman Íslendingar?

mánudagur, desember 01, 2008

Raunir 85

þegar að allt þetta kreppubull byrjaði
varð ég ansi hvumsa
þegar talað var um að verðbólgan
hefði verið ansi mikil í kringum 1990.
Ég mundi ekkert eftir því.

Líklegast vegna þess að þá var ég ung og ástfangin
fátæk, nýbökuð móðir
og var ekkert að spá í peninga.

Ég bjó í leiguhúsnæði,
sem alla tíð var frekar dýrt,
átti aldrei krónu með gati,
keypti mér aldrei neitt
og hafði lítið annað að hugsa um en að gefa brjóst
og skipta á bleyjum.

Eldamennskukunnáttan var í lágmarki
og því var matseldin í takt við það.

Á þessum árum hafði ég þá mynd í kollinum
að einn daginn yrði ég fín frú
með skítnóg af seðlum
sem gengi í pels og háum hælum......
Held að fyrirmyndin hafi að einhverju leiti komið frá móður vor.

En ekki rættist sú mynd og hef ég nánast alla mína fullorðinstíð
verið skítblönk og sparandi.
Aldrei haft meira en nóg á milli handanna
og stundum ekki einu sinni nóg.
Eldamennskan fór svo út um gluggan með eiginmanninum.
Í mörg ár var lifað á eggjum og núðlusúpum.

Um daginn var ég að rifja upp
hvað ég hafði í matinn á þessum árum.
Þá kom margt skemmtilegt í ljós.

Í dag kemur þessi reynsla sér einkar vel
því oft á tíðum þurfti ég að vera skapandi og frumleg
með einungis hakk, spaghettí, lauk og kartöflur á milli handanna.
Yfirleitt var líka til hveiti, mjólk
og jú eitthvað af kryddi.

Ég töfraði fram ansi skrautlega rétti á þessum árum.
"Fátæki maðurinn" "Spaghettí surprise" ( nokkrar útgáfur)
"Mix max magídúdí " og "kartöflugums" (einnig nokkrar útgáfur)
Þegar svo inn á borð duttu stórkostlegir hlutir
eins og ostur, hvítlaukur og tómatar í dós......
þá var sko kátt í höllinni.

Allir þessir réttir áttu eitt sameiginlegt.
Þeir voru ótrúlega ódýrir
en ansi bragðgóðir.

Í gær bjó ég til Mix max magídúdí......
og verð að játa að mér fannst það bara þrælgott.
Maður býr að hverri reynslu
og neyðin kennir naktri konu að spinna.