sunnudagur, desember 14, 2008

Raunir 92

Þar sem ég skrölti inn í Bónus,
í minni heimabyggð - Kringlunni,
til að versla mér uppþvottalög
og klósettpappír á uppsprengdu verði,
gat ég ekki séð að Íslendingar
væru í miðri kreppu.

Það var troðfullt af fólki
og allir að versla og versla -
ekki bara að glápa og toga.

Ég verð að viðurkenna að ég var frekar hissa.
Er sjálf búin að gera samning við fjölskyldu og vini.

Þegar ég kom heim tilkynnti ég svo unglingnum
að það sé ekki í boði lengur
að nota tappa, bindi og rakvélablöð á þessu heimili.
Ég einfaldlega neita að borga svona mikið fyrir þessar vörur.
Ég meina þetta er bara rugl!

Hér verða því kvenmenn heimilsins
loðnir um allar trissur
og vindandi ullarlagða í vaskinum mánaðarlega.

15 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

ég reyndi að nota árans Álfabikarinn, ekki séns.

Við erum búin að skipta svitakremum út fyrir saltkristal hér, samt. Virkar nokk vel.

12:07 f.h.  
Blogger Elísabet said...

það er algerlega galið verð á þessum vörum og ekki fer það skánandi. enda eru dömubindi auðvitað helber lúxusvarningur. ódýrara að vera heima þennan tíma mánaðarins og sitja á klósettinu. vera með tölvuna á hnjánum og hafa það huggulegt.

vinnutap? fne.

5:06 e.h.  
Blogger Ameríkufari segir fréttir said...

Eða ganga bara í rauðum buxum?

7:33 e.h.  
Blogger Kristín said...

Var einmitt að kaupa þessa lúxusvöru hérna í dag, djöfulsins helvítis dónaskapur þetta verð!

10:58 e.h.  
Blogger Blinda said...

Væri þetta svona ef karlmenn hefðu á klæðum?? - I wonder.....

og ekki röfla um að karlmenn noti líka rakvélarblöð - þeir hafa val - safna skeggi....sem og konur að sjálfsögðu, en það þykir bara ekki eins fínt .....

Þetta er einfaldlega glæpsamlegt!

11:49 e.h.  
Blogger Syngibjörg said...

fyrir þær sem vilja sleppa við mánaðarvesenið þá er til pilla sem maður getur tekið án þess að gera hlé, minipillan. Veit ekki hvort hún hentar öllum en er til fyrir þær sem kjósa að losna við þessi leiðindi.

1:54 e.h.  
Blogger Blinda said...

Hindra þær líka hárvöxt?? ;-)

Því miður má ég einungis nota eina tegund af getnaðarvörn....
þannig að það er bara ullarlagðurinn :D

2:49 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

En hvað kosta þessi mánaðarlegu herlegheit? Kveðja í bæinn. Gulla Hestnes

10:12 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Já, ég gleymdi..hvað er álfabikar?Sorrý, ég er bara svo gömul því í mínu ungdæmi..bla bla bla! Gulla

10:14 e.h.  
Blogger Blinda said...

Og hér Gulla mín kæra er reynsla mín af kvikindinu árið '06-
(unglingadótið er dáið í dag)

Þrátt fyrir að hafa af mikilli hetjudáð
náð að kreista tæpum 17 merkum af stúlkubarni
út um gat sem á engan veginn að geta orðið svona stórt,
virðist ég á þessum tíma lífs míns
vera með fæðingarveg óbyrju
og því tæknilega séð "lögleg afturbatapíka".

Ekki veit ég hvort að ástæðan er sú staðreynd
að 16 ár eru liðin frá téðu goti,
eða að ég hef alla tíð
stundað grindarbotnsæfingar af kappi,
eða bara eitthvað allt annað.
Kannski sitt lítið af hvoru.
Weird.

Hvernig ég komst að þessum sannleika um sjálfa mig
var kannski ekki jafn gleðilegt og niðurstaðan sjálf.

Þannig er að ég lét loks undan miklum þrýstingi
í mínu síspriklandi umhverfi
og fjárfesti í s.k. álfabikar.

Þegar gripurinn barst loks í pósti
varð mér lengi starsýnt á enda þann
er koma átti fyrir á hinum heilaga stað
og átti bara tvö orð:


"NO ******* WAY"
(stjörnurnar voru í hljóði og teljast því ekki með)


En........Þar sem ég er allt annað en kvitter
var þrátt fyrir allt, við næstu tíðir,
hafist handa
við að koma fyrirbærinu á réttan stað.

Gekk verkið heldur brösulega fyrir sig -
svo ekki sé meira sagt.
Jafnvel ekki laust við að ég hafi
(eftir u.þ.b. klukkutíma brölt ásamt tilheyrandi stunum og svita)
verið við það að gefast upp þegar skyndilega....
VOILA!
Líklegast sökum þrjósku, ákveðni......og.....tjah...smá heppni
....gekk dótið loks upp og saug sig fast.

Allan þann daginn var gleðin við völd.
Er ekki laust við að ég hafi litið út
eins og glansmyndaauglýsing fyrir vængjabindi.
Flaxandi hár, geislandi fas, valhopp og alles.
Slík var hamingjan.
Ég vissi ekki af því að ég hafði á klæðum.

Þó bar svo við undir kvöld hið óumflýjanlega.
Kominn var tími til að tékka á stöðunni,
tæma kvikindið.
Bjakk.
Ekki eitthvað sem ég hafði hlakkað til
og því frestað ítrekað,
en hafði loks mannað mig upp í að framkvæma.

En, ónei!
Út vildi græjan eigi.
Sat sem fastast og virtist ætla að vera þar að eilífu.
Ég snéri, togaði, þrýsti, kreisti, potaði - ekkert gekk.
Í panikk-kasti reif ég loks af öllu afli í dindilinn á draslinu
og rykkti í með báðum höndum
ætlaði ekki að láta finna mig "dauða úr álfabikar".

Ekki góð hugmynd.

......

Eftir að ég var búin að þrífa sláturhúsið
sem baðherbergið mitt breyttist í á einu augnabliki,
var þrátt fyrir allt ákveðið að gera smá tilraun
og máta minni gerðina,
sem keypt hafði verið fyrir unglinginn,
en ekki enn búið að nota.
Frelsið um daginn hafði verið þvílíkt
að annað var ekki hægt en að prófa.

Jahérna!
Ekkert vesen og allt gekk eins og í sögu.

Ég er s.s. með unglingapjásu.
Jibbý........
Gömlupjásubikarnum verður því skilað.

10:45 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Svo er hægt að fá sér hormónalykkjuna, kostar 20 þús en ég slepp alveg við túrinnn og sakna hans ekki.... hef ekki verið á túr í 4 ár! Hugsa sér hvað ég er búin að spara í tappa og verkjatöflur og vesen!

12:41 e.h.  
Blogger Blinda said...

Ég má ekki fá svoleiðis - desværre

2:02 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Ég bara spyr, hvernig er hægt að kalla þetta slubbutæki Álfabikar? Eitthvað sem tengist álfum á að vera fallegt og svífandi eins og í bókunum! Asnalegt. Kærust kveðja. Gulla Hestnes

10:40 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Jú álfabikarinn er algjör snilld, þegar maður er komin upp á lag með að nota hann. Ég held að ég hafi komist næst því að svífa eins og konurnar í dömubindaauglýsingunum eftir að ég fór að nota hann, laus við að ganga með misblaut bindi í buxum daglangt. Nafnið álfabikar er víst tilvísun í blóm sem blómstar með klukkum svipuðum álfabikarnum í laginu. Konunni sem hóf innflutning á "the Keeper" eins og mig minnir enska heitið vera fannst þetta nafn vel við hæfi. En sagan þín Blinda er algjör snilld, ég grét af hlátri við tölvuskjáinn. Kveðja Sigríður Ha

9:38 f.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Ó.. "algjör snilld" er frekar ofnotuð í þessari athugasemd hjá mér... SH

9:40 f.h.  

Skrifa ummæli

<< Home