miðvikudagur, desember 03, 2008

Raunir 87

Ég er ekki stolt af því
en verð samt að viðurkenna
að þekking mín á fjármálum
er til háborinnar skammar.

Ég er viðurkenndur hálviti
þegar kemur að fjármálum.

Samt hef ég náð að halda mér nokkurn veginn réttum megin
alla mína fullorðinstíð.
Aldrei lent í stórkostlegum skítamálum
og alltaf borgað reikningana mína.
Þar kemur til bara almenn skynsemi og sparsemi.

Vegna þessa, fór ég því yfirleitt að ráðum þeirra
sem vinna við fjármál og þessháttar
og treysti því að þeir vissu betur en ég í ákvarðanatökum.

Það var því einfaldlega gunguskapur og níska
sem bjargaði mér frá því að breyta lánunum mínum á sínum tíma
til þess að fá extra skotsilfur til að eyða í vitleysu.
Það sem ég er feginn í dag!

Hins vegar ...........
Þegar ég keypti fyrsta bílinn sem ég hef keypt sjálf um ævina
treysti ég sölumanninum fullkomnlega
til að gefa mér ráð um hvað væri best fyrir mig að gera.

Maðurinn talaði um eitthvað myntkörfulán
sem ég satt að segja hafði ekki hugmynd um hvað var.
En hann sagði að það væri besti kosturinn fyrir mig,
svo ég skrifaði undir.

Ég tók þó skýrt fram að ég vildi ekki bíl
sem kostaði meira en milljón
og ég gæti einungis ráðið við ca 15.000 krónur í afborgun á mánuði.
Ég hins vegar tók tilboði um bíl á 1,2 milljónir
og afborgun upp á 18.000 (lét sannfærast)
en sagði honum að þá væri ég nærri því að sprengja budduna
og ég gæti engan veginn farið hærra en það.

Núna kostar bíllinn minn 2,3 milljónir
og afborgunin er 42.000 á mánuði.
Samdi ég um það?

Mér er sagt að þetta sé mér að kenna
því ég skrifaði undir lánið.

Tók ég 2,3 milljón króna lán?
Nei.
Sagði ég að ég gæti borgað 42.000 á mánuði?
Nei.
Var útskýrt fyrir mér hvað myntkörfulán þýðir?
Nei.
Sá almenningur þetta ástand fyrir, fyrir ári síðan?
Nei.

Hvers vegna er mér þá skilt að borga þetta?

Vegna þess að ég er fávís kona sem treysti því
að sá sem hún var að versla við
myndi veita henni góða ráðgjöf
og segja henni satt og rétt frá.
Þar liggur minn glæpur.

Gaman að þessu.

5 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Þetta er ekki hægt, en samt látið viðgangast. Ef upphaflega fjárhæðin nánast sprengdi þig þá hlýtur þú að vera orðin að frumeindum núna. Þetta er ömurlegt, en kær kveðja samt sem áður. Gulla Hestnes

7:45 e.h.  
Blogger Blinda said...

Fékk frystingu á lánið í 4 mánuði - borga núna 19.240 krónur á mánuði - hitt safnast víst upp - og hef svo ekki hugmynd um hvað gerist næst!!!
Takk fyrir kæra kveðju :-)

7:55 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Lög í Frakklandi eru þannig að ef bankinn lánar þér og þú getur svo ekki borgað, máttu lögsækja bankann. Eitt af því fyrsta sem íslensk yfirvöld gerðu var að banna lögsóknir gegn bönkunum. Það í sjálfu sér er HNEISA. Ísland er ein stór fokking hneisa í dag. Ég skelf þegar ég hugsa um það.

8:07 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Þessi gengistryggðu lán hafa farið mjög illa með fólk. Ég veit um dæmi þess að hjón hafi tekið 40 milljón króna lán í Evrum í maí 2007 og þú getur rétt ímyndað þér hvernig þau mál standa í dag. Ef maður hefði miðað við nokkur ár þar á undan þá var gengistryggt lán bara ágætis hugmynd. Ef miðað er við bankahrun og fjármálakreppu þá er það ekki svo góð hugmynd. Málið er væntanlega hvor viðkomandi ráðgjafi hafi getað lofað einhverju því maður hlýtur að gera sér grein fyrir að hann eða hún hefur enga hugmynd um gengisþróun frekar en aðrir.

9:21 f.h.  
Blogger SHAR said...

fjármálafáviti er ég líka en krossa mig nú og signa í bak og fyrir að hafa ekki látið leiðast út í erlent lán, verðtryggða helvítið bólgnar hins vegar út eins og skrímsli sem hefur hlaupið ofvöxtur í

11:58 f.h.  

Skrifa ummæli

<< Home