mánudagur, desember 01, 2008

Raunir 85

þegar að allt þetta kreppubull byrjaði
varð ég ansi hvumsa
þegar talað var um að verðbólgan
hefði verið ansi mikil í kringum 1990.
Ég mundi ekkert eftir því.

Líklegast vegna þess að þá var ég ung og ástfangin
fátæk, nýbökuð móðir
og var ekkert að spá í peninga.

Ég bjó í leiguhúsnæði,
sem alla tíð var frekar dýrt,
átti aldrei krónu með gati,
keypti mér aldrei neitt
og hafði lítið annað að hugsa um en að gefa brjóst
og skipta á bleyjum.

Eldamennskukunnáttan var í lágmarki
og því var matseldin í takt við það.

Á þessum árum hafði ég þá mynd í kollinum
að einn daginn yrði ég fín frú
með skítnóg af seðlum
sem gengi í pels og háum hælum......
Held að fyrirmyndin hafi að einhverju leiti komið frá móður vor.

En ekki rættist sú mynd og hef ég nánast alla mína fullorðinstíð
verið skítblönk og sparandi.
Aldrei haft meira en nóg á milli handanna
og stundum ekki einu sinni nóg.
Eldamennskan fór svo út um gluggan með eiginmanninum.
Í mörg ár var lifað á eggjum og núðlusúpum.

Um daginn var ég að rifja upp
hvað ég hafði í matinn á þessum árum.
Þá kom margt skemmtilegt í ljós.

Í dag kemur þessi reynsla sér einkar vel
því oft á tíðum þurfti ég að vera skapandi og frumleg
með einungis hakk, spaghettí, lauk og kartöflur á milli handanna.
Yfirleitt var líka til hveiti, mjólk
og jú eitthvað af kryddi.

Ég töfraði fram ansi skrautlega rétti á þessum árum.
"Fátæki maðurinn" "Spaghettí surprise" ( nokkrar útgáfur)
"Mix max magídúdí " og "kartöflugums" (einnig nokkrar útgáfur)
Þegar svo inn á borð duttu stórkostlegir hlutir
eins og ostur, hvítlaukur og tómatar í dós......
þá var sko kátt í höllinni.

Allir þessir réttir áttu eitt sameiginlegt.
Þeir voru ótrúlega ódýrir
en ansi bragðgóðir.

Í gær bjó ég til Mix max magídúdí......
og verð að játa að mér fannst það bara þrælgott.
Maður býr að hverri reynslu
og neyðin kennir naktri konu að spinna.

3 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Uppskrift!

8:58 e.h.  
Blogger Ameríkufari segir fréttir said...

það var ágætis bjarmi í þessum pistli-ég segi það sama, gaman væri að fá uppskriftir:)

9:54 e.h.  
Blogger Blinda said...

Ég skal reyna að henda inn einhverjum hugmyndum.......en það er einmitt það sem þessi matseld er: hugmyndir.

Þetta var hráefnið - og svo var bara málið að vera nógu skapandi og frumlegur og gera eitthvað ætt úr þessu - án þess að það væri þó alltaf það sama ;-)

2:00 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home