föstudagur, nóvember 28, 2008

Raunir 84

Mér finnst það mikið þroskamerki
þegar að stálpaður unglingurinn minn segir:

"Það eina sem mér finnst leiðinlegt
við að nota brúnkukrem
í staðinn fyrir að fara í ljós,
er að það koma ekki freknur af kreminu"

Hvað ætli hafi verið gólað og grenjað yfir freknunum
á tilteknum tíma í gelgjuskapnum......
meðan að mamman reyndi árangurslaust
að segja henni að þær væru fallegar?

Ætli hún sé ekki bara að fullorðnast krakkinn.......
svona pínulítið....

þriðjudagur, nóvember 25, 2008

Raunir 83

Gott fólk.

Mig bráðvantar chromatic munnhörpu
sem kostar ekki 25000 kall.

Er einhver sem á notað eintak sem hann vill ekki eiga
og er tilbúinn að selja á lítinn pening
eða veit einhver hvar er hægt að nálgast slíkan grip?

Allar ábendingar vel þegnar.


ps. Bíllinn minn sem ég keypti á kr. 1.200.000 fyrir ári síðan
kostar í dag kr. 2.300.000.
Anyone?

sunnudagur, nóvember 23, 2008

Raunir 82


Þegar lífið er súrt..........

miðvikudagur, nóvember 19, 2008

Raunir 81

Vantar ekki alltaf fólk í hjálparstörf?

(Raunin virðist önnur)

þriðjudagur, nóvember 18, 2008

Raunir 80

Las frétt á mbl.is
þar sem sagt er frá því
að maður hafi látist í flugvél á leið frá Moskvu til Toronto.
Líkið var svo skilið eftir hér............
en fjölskyldan hans hélt áfram með vélinni til Toronto.

Er ég sú eina sem finnst þetta svolítið undarlegt?

laugardagur, nóvember 15, 2008

Raunir 79

Það er lítið annað að gera núna
en að leyfa sér að gráta.

Gráta alla sem ég hef misst á einu ári,
enda eiginlega kominn tími á það.

Byrjaði á leiðinni frá Keflavík,
tók svo smá leikþátt í vinnunni -
en get nú leyft mér að halda áfram.

Mér finnst lífið hart, frekt og óréttlátt.
Langar mest að öskra,
það bara hefur ekkert upp á sig
en gráturinn hreinsar.

Svo snýtir maður sér
réttir úr bakinu
og heldur áfram.

Það skal koma betri tíð.

fimmtudagur, nóvember 13, 2008

Raunir 78

Í gærmorgun sagði ég konunum að prumpa þrisvar.......
ætlaði að sjálfsögðu að segja þeim að pumpa - ekki prumpa.
Hefði þó verið skondið ef þær hefðu bara hlýtt mér
(eins og þegar þær elta mig að græjunum).

Í morgun sagði ég þeim svo að draga efri fótinn upp að hnakka.....
hef ekki hugmynd um hvað það átti að þýða,
en ég var ótrúlega stressuð
vegna þess að yfirmaðurinn settist inn í tíma hjá mér
og horfði á frá upphafi til enda.

Leið eins og ég væri smástelpa í prófi,
bullaði eintóma þvælu og andaði hátt í míkrafóninn.
Renndi mér svo eins og prímaballerína í splitt
þar sem adrenalínsinnspýtingin var í hámarki
og ætlaði svo aldrei að ná mér til baka.
Hefði verið pínlegt að festast þannig
og þurfa að fara í sjúkrabíl upp á slysó.

Verð annars vör við vaxandi gremju og ótta í kúnnahópnum
Allir að fatta að ástandið er ekkert að lagast......
í raun bara ekkert að gerast
og ekkert vitað hvað verður gert.
En ég er alveg eins
og var m.a.s. að fá að vita að það sé ekkert víst
að yfirdrátturinn minn verði framlengdur!
Hvað gerir maður þá?

Fékk þá snilldarhugmynd um daginn
að skella mér í Kolaportið með geymsludót
og gömul föt - aðallega af unglingnum
reyna að losa um dótið og fá pjéning í staðinn
í stað þess að fara með það ókeypis í Rauða Krossinn
eins og ég er vön að gera.
Fékk þær upplýsingar að básar væru þar allir uppseldir
og ekkert laust fyrr en á næsta ári.

Líklega fleiri sem fengu sömu hugmynd.

Hér ríkir svo jarðarfarastemmning.
Allir bara voða sorgmæddir og þöglir,
enda ekkert hægt að segja
og ekkert hægt að gera.

Auðvitað gæti ég gefið skít í allt
og bara hent mér upp í vél og yfirgefið sökkvandi skerið.
En það er enga vinnu að hafa í Köben
og þar erum við ekki heldur með húsnæði.
Ég gæti ekki einu sinni leigt íbúðina mína núna
þar sem leigumarkaðurinn er orðinn stútfullur
og leiguverð í samræmi við það.
Leigan myndi því ekki einu sinni dekka útgjöldin hér heima.
Ekki fýsilegur kostur að leggjast í slíka ævintýramennsku.

Ég er á hvínandi kúpunni
var það ekki fyrir þremur mánuðum -
var bara blönk, eins og ég hef verið undanfarin ár,
en núna er ég skuldug upp fyrir haus -
og ekki kemur það til með að batna.

Hef tvisvar haft tækifæri
til að vinna mér inn aukatekjur með námskeiðahaldi
en í bæði skiptin féllu námskeiðin niður
vegna ónægrar þátttöku.
Eru foreldrar farnir að spara við sig í ódýrum tómstundum barna?

Ef svo er þá erum við virkilega farin á hausinn.

mánudagur, nóvember 10, 2008

Raunir 77


Þá er búið að negla farardag á "útlendinginn".

Þurfum víst að rífa okkur upp eldsnemma á rassgatinu
næstkomandi laugardagsmorgunn
og henda honum í vél.

Ekki beint eins og við höfðum sér þetta fyrir okkur
en svona er bara lífið stundum
maður fær ekki alltaf allt sem maður vill.

Framtíðin leiðir svo í ljós
hvernig málin æxlast.

Það er helvíti skítt þegar efnahagsástand landsins
er líka farið að rústa samböndum
sem og fjárhag heimilanna.

Ef við hefðum bara vitað.



sunnudagur, nóvember 09, 2008

Raunir 76

Fortíðin er liðin
og flestir sem tala af viti
segja okkur að við eigum ekki
að velta okkur upp úr því sem liðið er.

Mér finnst hins vegar óhjákvæmilegt
að hugsa um fortíðina
því hún er jú hluti af þér
og hefur að miklu leiti mótað þig.

Minningar eru líka fortíðin þín
og það væri ljótt að tapa öllum minningum sínum.

Það sem mér finnst þó verst
er að upplifa eftirsjá
vegna þess að hún skilar engu.
Þú breytir aldrei fortíðinni.
Það eina sem þú getur breytt er framtíðin.

Svo hellist alltaf yfir mig þessi sterka löngun
að fá unga fólkið til að virkilega skilja
að lífið er stutt,
það líður hratt,
það eigi að gera allt sem það langar að gera
og gera sem mest.

Notfæra sér óttaleysið og kjarkinn
sem einkennir þá ungu
og upplifa, njóta og framkvæma
meðan enn er eldur í hjarta
og kraftur í sál.

En það er svo erfitt að fá þau til að hlusta og skilja.
Alveg eins var farið með mig forðum....
ég hélt nefnilega að ég hefði nægan tíma

laugardagur, nóvember 08, 2008

Raunir 75

Nú styttist víst í jólin.
Það bera auglýsingarnar
og skrautið í búðunum með sér.

Ég er ekkert sérstaklega spennt fyrir jólunum,
ekki það að ég hafi nokkurn tíma verið mikið jólabarn,
en núna ber svo við
að ég veit ekkert hverig jólin verða eða eiga að vera.

Útlendingurinn verður í Danmörku
og þar sem hann verður heimilslaus
er ekki um að ræða að skreppa þangað
jafnvel þó manni áskotnuðust pjéningar til fararinnar.
Hann sömuleiðis í skotsilfurskorti
og gæti ekki hoppað hingað heldur þó hann vildi.
Unglingurinn verður líklega ekki á landinu.
Mamma gamla er orðin ein í koti.
Það er allt einhvernveginn öfugsnúið og bjánalegt.
Maður er bara ekkert svakalega glaður.

Auk þessa
er maður auralaus og vitlaus
og andlaus ofan í allt saman
og getur því ekki einu sinni föndrað.
Sé ekki fyrir mér að geta verslað inn mat og drykk
nema bara þetta venjulega í Bónus.
En þetta er auðvitað raunveruleiki margra í dag.

Draumurinn væri
að geta farið burt
og eytt hátíðunum á skíðum
eða á hvítri strönd
en það er eins og ég segi
draumur.

Þetta líður víst allt eins og allt annað
og áður en maður veit af
er þetta allt búið.

Whatever will be will be.........
en mér finnst að það ætti að banna spilun á jólalögum
þar til í fyrsta lagi 1. desember.

fimmtudagur, nóvember 06, 2008

Raunir 74

To often, we lose sight of lifes simple pleasures.
Remember, when someone annoys you
it takes 42 muscles in your face to frown,
BUT, it only takes 4 muscles
to extend your arm and bitch-slap that mother....
upside the head.
Pass it on...

miðvikudagur, nóvember 05, 2008

Raunir 73

Rass og kúkafýla!

þriðjudagur, nóvember 04, 2008

Raunir 72

Þegar "útlendingurinn" kom út í gærmorgun
var búið að stela hjólinu
sem hann keypti í september
og notaði til að komast á milli staða.

Eldri hjól í sama hjólastæði voru látin vera,
þrátt fyrir að sum væru ólæst.
(hans var n.b. læst)

Eftir að búið var að arka í bankann og greiða danska reikninga
með "öllum" peningunum reiknuðum á Brussel genginu
dugði afgangurinn fyrir tæpum sígópakka.
Það kemur sér einkar vel fyrir heimilishaldið,
en ég hélt að ég yrði betur stödd í dúó en einleik.
Aldeilis ekki.
Aukamanneskja kostar pening
og ef ekkert fylgir henni í búið
er hún bara mínus í bókhaldinu
sem enginn hefur efni á þessa dagana.

Nú er hægt að velja um starfsfólk í leikskóla og frístundaheimili
(sem er reyndar mjög gott og tímabært að Íslendingar nenni að vinna)
en þýðir þó aðeins eitt -
það eru engin störf í boði lengur,
ekki einu sinni kassadjobb í matvörubúð.

Hér ríkir því uppgjöf og verið að plana brottför "útlendingsins".
Verst að það er ekki einu sinni til fyrir farmiða
hvað þá að hann hafi lifibrauð fyrir næsta mánuð.

Talandi um slæma tímasetningu.

sunnudagur, nóvember 02, 2008

Raunir 71

Þessa dagana eru það að mestu tilfinningarnar sem ráða.
Þær eru eins kaótískar og þær geta verstar verið
en hæst rís þó kvíðinn.

Ég hef í raun ekki alveg fullan skilning á því sem er að gerast
en ég skil samt mætavel hvaða áhrif það er að hafa á mitt líf
þó svo ég viti engan veginn hvað mun gerast í framtíðinni.

Ég er reið, sár og mér svíður óréttlætið.
Ég er hrædd, vonlítil og svekkt.
Verst er þó að vera svona ráðalaus.
Hvað get ÉG gert?
Hvað get ÉG lagt lagt af mörkum?

Ég hef að sjálfsögðu margt til að vera þakklát fyrir.
T.d. stefnir ekki í að ég missi íbúðina mína,
ég á góða dóttur,
fékk frystingu á bílalánið ( fékk þó ekki að skila druslunni)
og fullt af pasta og dósamat í skápunum.
En ég hef ekki alla fjölskylduna mína,
ég get ekki þakkað fyrir þá blessun að öllum mínum líði vel
og að þeir og maður sjálfur hafi heilsuna.
Það hefur ýmislegt gengið á
og þetta var alveg til að toppa það.
Ég sé meira að segja fram á upplausn og sambandsslit
þar sem að ástandið kemur sér einkar illa núna
og hefur sett allt í eitt allsherjar fokk.

En hvernig fer með vinnumál á næstu mánuðum?
Kem ég til með að verða áfram í góðum málum?
Glutrast það litla sem maður á niður með ruglinu
og þarf ég þá eina helv... ferðina enn að byrja upp á nýtt?

Ég er bara engan veginn að nenna því ef ég á að vera hreinskilin.
Líklegast bara lúxusvandamál - (klósettpappírsleysi og þess háttar)
það getur vel verið.
En ég er alveg búin að fá minn skammt
af alvöru vandamálum líka og erfiðleikum líka.
Þessi áratugur er búinn að vera hreinræktuð drulla á mínum bæ.
Ég má alveg vera reið.

laugardagur, nóvember 01, 2008

ekki beint Raunir 70

Litla spottið mitt er 18 ára í dag.
Hefur leyfi til að gifta sig,
kjósa,
ásamt því að vera fjárráða
og mega reykja sígarettur.

Sem betur fer hefur hún engan áhuga
á því síðastnefnda.

Í kvöld er hún með grímubúninga partý
og af henni skín ekkert nema fegurð
og hamingja.

Ég er stolt af stelpunni minni
og mér
fyrir að hafa potað henni í heiminn
(öllum 16 og hálfum merkunum)
og alið hana rétt og vel upp.

Afsakið meðan ég snýti mér aðeins.

Raunir 70

Farin ad mótmæla.
Komid med.