Í gærmorgun sagði ég konunum að prumpa þrisvar.......
ætlaði að sjálfsögðu að segja þeim að pumpa - ekki prumpa.
Hefði þó verið skondið ef þær hefðu bara hlýtt mér
(eins og þegar þær elta mig að græjunum).
Í morgun sagði ég þeim svo að draga efri fótinn upp að hnakka.....
hef ekki hugmynd um hvað það átti að þýða,
en ég var ótrúlega stressuð
vegna þess að yfirmaðurinn settist inn í tíma hjá mér
og horfði á frá upphafi til enda.
Leið eins og ég væri smástelpa í prófi,
bullaði eintóma þvælu og andaði hátt í míkrafóninn.
Renndi mér svo eins og prímaballerína í splitt
þar sem adrenalínsinnspýtingin var í hámarki
og ætlaði svo aldrei að ná mér til baka.
Hefði verið pínlegt að festast þannig
og þurfa að fara í sjúkrabíl upp á slysó.
Verð annars vör við vaxandi gremju og ótta í kúnnahópnum
Allir að fatta að ástandið er ekkert að lagast......
í raun bara ekkert að gerast
og ekkert vitað hvað verður gert.
En ég er alveg eins
og var m.a.s. að fá að vita að það sé ekkert víst
að yfirdrátturinn minn verði framlengdur!
Hvað gerir maður þá?
Fékk þá snilldarhugmynd um daginn
að skella mér í Kolaportið með geymsludót
og gömul föt - aðallega af unglingnum
reyna að losa um dótið og fá pjéning í staðinn
í stað þess að fara með það ókeypis í Rauða Krossinn
eins og ég er vön að gera.
Fékk þær upplýsingar að básar væru þar allir uppseldir
og ekkert laust fyrr en á næsta ári.
Líklega fleiri sem fengu sömu hugmynd.
Hér ríkir svo jarðarfarastemmning.
Allir bara voða sorgmæddir og þöglir,
enda ekkert hægt að segja
og ekkert hægt að gera.
Auðvitað gæti ég gefið skít í allt
og bara hent mér upp í vél og yfirgefið sökkvandi skerið.
En það er enga vinnu að hafa í Köben
og þar erum við ekki heldur með húsnæði.
Ég gæti ekki einu sinni leigt íbúðina mína núna
þar sem leigumarkaðurinn er orðinn stútfullur
og leiguverð í samræmi við það.
Leigan myndi því ekki einu sinni dekka útgjöldin hér heima.
Ekki fýsilegur kostur að leggjast í slíka ævintýramennsku.
Ég er á hvínandi kúpunni
var það ekki fyrir þremur mánuðum -
var bara blönk, eins og ég hef verið undanfarin ár,
en núna er ég skuldug upp fyrir haus -
og ekki kemur það til með að batna.
Hef tvisvar haft tækifæri
til að vinna mér inn aukatekjur með námskeiðahaldi
en í bæði skiptin féllu námskeiðin niður
vegna ónægrar þátttöku.
Eru foreldrar farnir að spara við sig í ódýrum tómstundum barna?
Ef svo er þá erum við virkilega farin á hausinn.