mánudagur, júlí 28, 2008

Raunir 28

Það er gott að elska
og að vera ástfanginn
er yndislegt ástand.

Það verður þó að viðurkennast
að það er ekki auðvelt
að vera staddur í öðru landi
en ástmögur þinn.

Þetta vita sumir
sem raus þetta lesa
af eigin raun.

Það er eitthvað svo óréttlátt
að þegar þú hefur loks fundið
þann sem þú vilt vera með öllum stundum
umfram alla aðra,
þá skilji himinn og haf ykkur að
í bókstaflegri merkingu.

Við fengum okkur Skype.

Eins og það er gaman
að geta séð og heyrt ástina þína
þá verða svona samskipti eitthvað.......
skrítin.

Svolítið meðvituð og kjánaleg,
en einnig ýtir það enn frekar undir söknuðinn
að hafa einhvern svona nálægt
en geta ekki snert hann eða verið hjá honum.
Svolítið tvíbent.

Vinkona mín spurði mig
hversvegna ég væri ekki bara farin.
Góð spurning-
en við þurfum jú öll að sinna skyldum
ganga frá lausum endum,
gera ráðstafanir-
"En þú gætir drepist á morgun"
sagði hún á sinn fallega hátt
og ég hugsaði:
Það er alveg rétt - á maður ekki að nýta hverja mínútu í lífinu?

Svo tók skynsemin við af ástsýkinni
og ég sætti mig við það að þurfa að bíða.
En skítur hvað það er erfitt.

laugardagur, júlí 26, 2008

Raunir 27

Well.........

Það er ekkert vit í að leyna því lengur
en ég er............

Yfir mig, algjörlega, yfirmáta, klikkaðslega ástfangin!

Eitthvað sem gerðist
þegar ég var upptekin
við að gera eitthvað annað.

Átti ekki að gerast
var á leiðinni annað
og ég bjóst ekki við því,
en hálfur dani
hefur stolið hjartanu mínu.

Hann dregur fram allt það besta í mér
og mér líkar vel við blinduna sem ég er
þegar ég er með honum.

Fólk horfir undarlega á okkur
þegar við erum saman,
en ég brosi bara framan í það
því í honum er allt sem ég hef alltaf viljað.

Ég þarf nefnilega ekki mann sem getur haldið á mér.

Ég þarf mann sem elskar mig eins og ég er
sem skilur mig
hlær með mér
er ljúfur
hefur sömu áhugamál
og skoðanir og ég
Mann sem er mér að öllu leiti samboðinn.

Mann sem kann að elska
að öllu leiti.

Og ég fann hann
alveg óvænt.

Undir mér er bleikt ský.
Almáttugur hvað ég er hamingjusöm.

mánudagur, júlí 14, 2008

Raunir 26

Míns er farins til kóngsins köben.

Kom óvænt upp og ég sló til fyrir 7 þúsundkalla.

Veit ekkert hvenær ég kem aftur,

þar sem ég á ekkert bókað heimflug.

Kannski kem ég ekkert aftur.

Hafið það samt gott á meðan.

föstudagur, júlí 11, 2008

Raunir 25

Þrátt fyrir ýmiskonar vesen og vandamál undanfarið.
Þrátt fyrir að frjóið af Öspunum sé að gera mig galna.
Þrátt fyrir að ég sé nú köflótt með bóndabrúnku.
Þrátt fyrir að enn lækki í buddunni minni.
Þrátt fyrir að margt sé heimskulegt í þessum heimi.

Þá er ég eitthvað svo lifandis skelfingar hamingjusöm núna.
Held ég sé komin til baka.

Nú ætla ég bara að vera.

þriðjudagur, júlí 08, 2008

Raunir 24

Skil ekki heilbrigðiskerfið okkar.

mánudagur, júlí 07, 2008

Raunir 23

Skemmti mér ljómandi vel á laugardaginn
því verður ekki neitað.

Ég verð samt að segja,
að mér finnst undarleg þessi árátta Íslendinga
að fara aldrei út að skemmta sér
fyrr en langt er liðið á nótt.....eða ætti ég að segja morgunn.

Hvernig stendur á þessari vitleysu?

Ballið á NASA átti að hefjast klukkan 23:00.
Mér fannst persónulega kjánalegt að húsið væri ekki opnað fyrr,
en samtrallarar mínir tjáðu mér
að það myndi ekki nokkur maður mæta svo snemma.
"Eigum við þá ekki að vera mætt klukkan ellefu?"
lagði ég til eins og fávís kona
og uppskar mikinn hlátur.
Ég vildi bara vera viss um að við fengjum sæti
svo að hægt væri að hvíla sig á milli rassakasta.
Á endanum varð hópurinn þó sáttur við að fara um miðnætti.
(þá eru n.b. liðnir tveir tímar frá mínum venjulega háttatíma)

Þegar inn á staðinn er komið
eru nokkrar einmana hræður að lufsast um húsnæðið
og flestir af þeim útlendingar.
Greinilegt að vinirnir höfðu rétt fyrir sér.
Palli var samt byrjaður að spila og í góðum gír,
þannig að ballið var þannig séð byrjað.
Þetta fannst mér undarlegt, ég meina......
Vill fólk ekki njóta sem lengst þess sem það er búið að borga fyrir
og hefur gaman að?

Það var svo ekki fyrr en vel gengið í tvö sem að fólk fór að streyma að
og klukkan tvö var staðurinn pakkaður.

Það var mikið fjör og mikið gaman en,
klukkan þrjú er ég yfirleitt meira en búin á því
og langar bara heim,
en þá var fjörið jú bara rétt að byrja.

Mér finnst þetta kjánleg stefna hjá landanum.
Af hverju ekki að mæta fyrr
koma sér í háttinn á skikkanlegum tíma
og geta vaknað ferskur daginn eftir?
Tala nú ekki um þegar maður er ekki tvítugur lengur
og þarf yfirleitt tvo daga til að jafna sig á tjúttinu.

Þetta gerir fólk í útlandinu.
Flestir farnir heim um eitt leytið
nema einstaka unglingar og brjálæðingar
sem fara á næturklúbba í iðnaðarhverfum
og sprella þar fram undir morgun.

Þarna vorum við búin að vera í grillveislu
frá því klukkan sex um kvöldið
þannig að skemmtunin var komin upp í 9 tíma törn!

Ég vil að við breytum þessu.
Þar er líka komin lausnin á látunum í miðbænum.
Þurfum ekki að raska ró íbúa.
Hvað er líka fólk að gera til klukkan tvö eftir miðnætti?
Er í alvörunni verið að spara
og tilgangurinn einn að drekka sem mest heima
og velta svo ofurölvi inn á bar eða skemmtistað?

Þá legg ég til að fólk byrji bara fyrr á kvöldin
eða eru kannski einhver lög sem banna það?

laugardagur, júlí 05, 2008

Raunir 22

Náði að vera í alvöru lasin í einn dag
en þá fór afneitunin í gang ásamt ofvirkninni.
Er nú búin að gera allt nema leiðinda verkefnin
sem eru að þvo hjúmongos rúmteppi mitt ásamt fylgihlutum,
skella sturtuhengi og baðgardínu í vél
og uppáhaldið.........
Draga fram eldavélina og hreinsa upp sull vetrar.
Jeii.... get ekki beðið.
Finnst reyndar ótrúlegt að ég hafi gert þetta áður
kannski eldamaskínan hafi stækkað á milli ára.

Er svo á leið í grillveislu og gleðskap með góðu fólki í kvöld
en svo skal skundað á NASA og tjúttað með Páli Óskari,
sem er að safna pjening fyrir hinseginn fólk.

Rámar í að það hafi verið búið að lofa dýrindis veðri
og var búin að velja stuttan, léttan sumarkjól
og hvíta opna skó sem útlit kvöldsins.
Þegar ég svo steig út í morgun var ég nokkuð viss um
að ég þyrfti að endurskoða fatavalið
eða kannski fer ég bara í ullarbrók undir
og lopapeysu utanyfir.

Mér finnst líka ekkert frekt að ætlast til að veðrið sé áfram gott
þó það sé búið að vera óvenju gott í júní.
Ég meina, er ekki sumar?
Af hverju eigum við Íslendingar alltaf að sætta okkur við skítaveður að sumri
einfaldlega vegna þess að við fáum nokkra góða daga?
Það á að vera hlýtt og sólríkt á sumrin
veturinn er viðbjóður hér á hjara veraldar og við eigum það skilið.

Sól, sól skín á mig – ský, ský burt með þig......

fimmtudagur, júlí 03, 2008

Raunir 21

Fyrsti dagur í sumarfríi og ég er hálflasin.
Er með þyngsli í höfði og brjósti, ráma rödd og með magaónot.
Er svona “lasin”, en ekki nóg til að leggjast í rúm og sofa mig frá öllu saman, en samt nóg til að geta bara lufsast um og vorkennt sjálfri mér.
Á sama tíma finnst mér að ég eigi að vera að gera eitthvað,
þetta er jú fyrsti dagur í sumarfríi.
Á ég ekki að vera að þrífa eitthvað, eða þvo uppsafnaðan þvott?
Þar sem mér líður ekki vel og er ekki í stuði til neins þá er ég að sjálfsögðu með heljarinnar samviskubit yfir því að vera ekki að sinna einhverjum af öllum þeim verkefnum sem lá fyrir að ég þyrfti að klára í “fríinu” og er með kvíðahnút yfir því að ég sé að eyða frídegi í vitleysu.
Hvaða andskotans rugl er þetta í manni?
Hversvegna á ég svona erfitt með að gera ekki neitt?

Á sama tíma er veðrið andstyggilega blautt og grátt og ég á í raun fullan rétt á að liggja bara og lesa þar sem ekki viðrar vel til útivistar fyrir hálflasna manneskju.
En þá eru það þrifin og þvotturinn sem stara á mig ásökunaraugum.
Þetta hlýtur að vera einhver tegund af geðveiki.

miðvikudagur, júlí 02, 2008

Raunir 20

Það gerist oft margt spaugilegt þegar fólk kemur saman.
Tala nú ekki um þegar það er úti í náttúrunni
í framandi aðstæðum
svo sem tjöldum.

Ættarmótið um síðustu helgi var þar engin undantekning.
Ein skemmtileg uppákoma af mörgum varð á laugardagsnóttina
og fékk mig til að hlæja svo mikið
að ég hélt á tímabili að ég myndi kafna.

Þannig var að í svefnrofunum í mínu tjaldi
heyri ég bróður vinkonu minnar kalla ámátlega á frænda sinn
sem var í næsta tjaldi.
(það tjölduðu allir í hring)
Var kallað nokkrum sinnum, þar til ég heyri að tjald er opnað
og frændinn greinilega svarar.
Veit ég svo ekki meir.

Um 20 mínútum síðar heyri ég vinkonu mína
sömuleiðis kalla ámátlega á frænda
og það sama gerist.
Tjald er opnað og frændinn svarar kalli.

Daginn eftir spyr ég forvitin eftir því
hvað hafi verið um að vera hjá systkinunum.

Jú.

Bróðirinn
(sem er n.b. byggingarverkfræðingur og stór og mikill nagli)
sat þegar frændinn kom að
rassfullur og sorgmæddur fyrir utan tjaldið sitt
og komst ekki inn í það.
Gat hann ómögulega opnað innra tjaldið
án þess að netlagið færðist undan
og lokaði jafnóðum fyrir gatið.
Var hann orðinn úrkula vonar um að komast inn
og kallaði því á hjálp.
Frændinn reddaði málunum með einu handtaki
og hleypti manninum inn.

Systirin hins vegar
(sem er sú manneskja sem ég leita til
ef þarf að leysa flókin verkefni og töffari mikill)
komst hinsvegar ekki ÚT úr sínu tjaldi
og glímdi við sama vandamál.
Netið renndist alltaf fyrir um leið og hún renndi ytri hlífinn frá.
Skelfingu lostinn og gráti nær, kallaði hún því á hjálp
því hún þurfti að komast á klósett.
Frændinn hleypti henni út.

Hversvegna það virðist vanta í bæði systkinin rennilásagenið
og hversvegna þau kölluðu bæði
á sama frændann til að leysa málið
er enn ráðgáta.

En hvað ætli hefði orðið um þau
hefði hann ekki verið með í för?

þriðjudagur, júlí 01, 2008

Raunir 19

Er búin að koma mér í móralska dílemmu.
Það er svo sem ekkert nýtt…..
Líf mitt er oft ein allsherjar dílemma
bara við það eitt að fara í Bónus.
Er það líklegast vegna ofhugsunar-gensins.

Það er með ólíkindum hvert hugsanir geta leitt mann.
en eins og ég hef oft sagt,
þá er líklegast best að vera svolítið vitlaus
og mátulega kærulaus í kaupbæti

Ó, allt það sem ég væri búin að gera
ef ég kynni ekki að kryfja allt niður í öreindir
greina og flokka, skipuleggja og rökræða…..
ég segi ekki að ég gæti þá sannlega
verið ein af félögunum á Austurvelli
með engar tennur og enga vini,
búin að spila rassinn úr buxunum OG nærbuxunum
tjah - bara í almennum skítamálum.
En, sumt hefði örugglega verið frábært og auðgað líf mitt til muna.

Eníhú

Ég er strangheiðarleg manneskja
Sem hef ekki lagt það í vana minn
að koma illa fram við fólk,
eða fara á bak við það.
Ég kann illa við svik og leynimakk
og tek ekki þátt í einhverju sem telst rangt eða siðlaust.
Ég virði reglur samfélagsins og almenns siðferðis
Svona eru bara mín prinsipp.

Er í aðstöðu þar sem - tjah -
ég er ekki beint að gera neitt af ofantöldu
en einhverra hluta vegna
líður mér samt þannig.

Get ég viðurkennt að það er ekki þægileg tilfinning.
Stundum er lífið bara svolítið of flókið
og ekki er allt svart og hvítt í henni veröld

Það gerir mig þó ekki sátta
svo það er víst best
að koma sér út úr aðstöðunni hið fyrsta,
ef halda á geði og reisn.

Nú er bara að finna út hvernig ég fer að því.

Úff.

Er lögst í ofhugsun,
en auglýsi um leið eftir vitleysingageni
tilbúnu til brúks.