Skemmti mér ljómandi vel á laugardaginn
því verður ekki neitað.
Ég verð samt að segja,
að mér finnst undarleg þessi árátta Íslendinga
að fara aldrei út að skemmta sér
fyrr en langt er liðið á nótt.....eða ætti ég að segja morgunn.
Hvernig stendur á þessari vitleysu?
Ballið á NASA átti að hefjast klukkan 23:00.
Mér fannst persónulega kjánalegt að húsið væri ekki opnað fyrr,
en samtrallarar mínir tjáðu mér
að það myndi ekki nokkur maður mæta svo snemma.
"Eigum við þá ekki að vera mætt klukkan ellefu?"
lagði ég til eins og fávís kona
og uppskar mikinn hlátur.
Ég vildi bara vera viss um að við fengjum sæti
svo að hægt væri að hvíla sig á milli rassakasta.
Á endanum varð hópurinn þó sáttur við að fara um miðnætti.
(þá eru n.b. liðnir tveir tímar frá mínum venjulega háttatíma)
Þegar inn á staðinn er komið
eru nokkrar einmana hræður að lufsast um húsnæðið
og flestir af þeim útlendingar.
Greinilegt að vinirnir höfðu rétt fyrir sér.
Palli var samt byrjaður að spila og í góðum gír,
þannig að ballið var þannig séð byrjað.
Þetta fannst mér undarlegt, ég meina......
Vill fólk ekki njóta sem lengst þess sem það er búið að borga fyrir
og hefur gaman að?
Það var svo ekki fyrr en vel gengið í tvö sem að fólk fór að streyma að
og klukkan tvö var staðurinn pakkaður.
Það var mikið fjör og mikið gaman en,
klukkan þrjú er ég yfirleitt meira en búin á því
og langar bara heim,
en þá var fjörið jú bara rétt að byrja.
Mér finnst þetta kjánleg stefna hjá landanum.
Af hverju ekki að mæta fyrr
koma sér í háttinn á skikkanlegum tíma
og geta vaknað ferskur daginn eftir?
Tala nú ekki um þegar maður er ekki tvítugur lengur
og þarf yfirleitt tvo daga til að jafna sig á tjúttinu.
Þetta gerir fólk í útlandinu.
Flestir farnir heim um eitt leytið
nema einstaka unglingar og brjálæðingar
sem fara á næturklúbba í iðnaðarhverfum
og sprella þar fram undir morgun.
Þarna vorum við búin að vera í grillveislu
frá því klukkan sex um kvöldið
þannig að skemmtunin var komin upp í 9 tíma törn!
Ég vil að við breytum þessu.
Þar er líka komin lausnin á látunum í miðbænum.
Þurfum ekki að raska ró íbúa.
Hvað er líka fólk að gera til klukkan tvö eftir miðnætti?
Er í alvörunni verið að spara
og tilgangurinn einn að drekka sem mest heima
og velta svo ofurölvi inn á bar eða skemmtistað?
Þá legg ég til að fólk byrji bara fyrr á kvöldin
eða eru kannski einhver lög sem banna það?