Þar sem ég sat og velti fyrir mér
hversvegna ég er alltaf svona þreytt
leit ég aðeins yfir farin veg.
Á síðustu 8 árum hef ég:
Farið í gegnum skilnað , fengið taugaáfall, gengið til geðlæknis, orðið háð kvíðalyfjum, farið í meðferð, farið í samband, selt íbúð, keypt íbúð, búið í hreysi, flutt, fermt einkabarnið, gengið í gegnum önnur sambandsslit, hætt störfum sem æskulýðsfulltrúi, farið ein til Spánar, orðið þunglynd, þurft að lóga kisunum mínum, verið atvinnulaus, borið út Morgunblaðið, unnið í fataverslun, lært til flugfreyju, unnið hjá ræstingafyrirtæki, jarðað góðan vin, orðið þolfimikennari, orðið fertug, farið í samband og úr því aftur, orðið fyrir líkamsárás, verið greind með áfallastreitu, eignast nýja vini og tapað gömlum, lesið yfir 100 bækur, hætt að reykja, málað myndir, byrjað aftur að reykja, misst bróður minn, léttst um 10 kíló, leikið í bíómynd, þyngst um 10 kíló, skipt um gleraugu, keypt mér bíl á myntkörfuláni, horft á dans í inni í fjalli, orðið ástfangin, ferðast til Danmerkur, hjólað um Danmörk, hafið sambúð, haldið tónleika, farið í nudd, sungið inn á geisladisk, misst föður minn, slitið sambúð, lagst inn á spítala, upplifað þjóðargjaldþrot, setið föst í eigna og skuldafangelsi, fengið heilahristing og á meðan á öllu þessu stóð hef ég etið, drukkið, sofið, hlegið, grátið, verið einmana, dansað, verið hamingjusöm, hef skandalíserað og gert góðverk, kennt, alið upp, elskað og hatað.
Svo finnst mér alltaf eins og ég sé ekki búin að gera neitt síðustu ár.