fimmtudagur, maí 28, 2009

Framkvæmdaraunir

Jæja,
þá er maður búinn að leigja út íbúðina
í þrjár af þeim fjórum vikum
sem ég verð úti í sumar.

Væri alveg til í að leigja fjórðu vikuna út líka
þar sem að þetta ævintýri
ætlar að verða svolítið kostnaðarsamt.

Það er nefnilega svo skrítið
að þegar þú veist að þú átt von á fólki í slotið
þá færðu skyndilega röntgenaugu
og sérð ýmislegt sem þarf að laga og gera.

Ég þurfti til dæmis að verlsa fullt af rúmfatnaði,
glös sem boðlegt er að drekka úr
diskamottur og viskustykki
og svona ýmislegt smálegt
eins og hinu og þessu til viðgerða og lagfæringa.
.......
svo tók ég eftir að baðherbergið er orðið frekar sjabbí
og ákvað að versla smámálningu til að sletta á það.

Fyrir utan allt þetta þá er búið að taka hér nánast allt í gegn
þrífa, laga og henda
og enn á eftir að gera við bilaða krana
lafandi skáphurðir
og svona ýmislegt smálegt sem að verður að vera í lagi
en kemur einnig til með að kosta einhvern pening.

Skrítið hvað maður verður samdauna öllu draslinu
og ósómanum sem hefur setið á hakanum um árabil.
Ég var alveg hætt að sjá þetta!!

En, ef þið vitið um einhvern utan af landi
eða frá útlöndunum
sem vantar íbúð ( og jafnvel bíl ) frá 15. júní til 22. júní
þá megið þið endilega hafa samband við mig.

Og þið hin sem sitið heima og látið ykkur leiðast
verið velkomin!
Hér er nóg af verkefnum sem ég get leyft ykkur að vaða í :)

Verst að núna er ég komin í svo góðan framkvæmdagír
að ég nenni ekki að þurfa að fara í vinnuna.

þriðjudagur, maí 26, 2009

Mótorraunir framhald

.....
og þrátt fyrir dauðsfall
eru þeir enn þeysandi um
sem aldrei fyrr.

Er þetta ekki sorglegt?

fimmtudagur, maí 21, 2009

Mótorraunir

Ég get alveg viðurkennt það
(án þess að missa blúnduna í mér)
að mig hefur alltaf langað í mótorhjól.
Mér hefur alltaf fundist ótrúlega gaman
að þeysa um á þesskonar græju
hvort sem ég er 13 eða 42.

Hins vegar er ég að missa þolinmæðina
gagnvart mótorhjólafólki
sem heldur að Miklabraut
sé þeirra persónulegi kappakstursvegur
hvenær sem er sólarhrings.

Fyrir það fyrsta er þessi braut
í miðri byggð - hér býr fullt af fólki
sem á sér líf og annað sem því fylgir.

Þegar að veðrið er gott
versnar þetta
og fer út í það að vera óþolandi!

Allar nætur vakna ég upp með andfælum
þar sem einhver gúmmídúddinn
hefur ákveðið að þenja draslið sitt
á auðum götum borgarinnar.
Þetta er engan veginn í lagi,
fyrir utan það að þetta er stórhættulegt.

Hvar er löggan
þegar þessir vitleysingar þeysa hér um 24/7 ?

Það er eitt að hafa gaman af að ríða mótorfák
en annað
að haga sér eins og fáviti
og ryðja út úr sér vitleysunni
um miðjar nætur
þegar hinn almenni vinnandi borgari sefur,
eða þá að stunda stórsvig í umferðinni
og stefna lífi annara í hættu
og misbjóða algerlega heyrn fólks.

Granny out..........

mánudagur, maí 18, 2009

Kynjaraunir

Einhverjir snillingar á Skjá einum
auglýsa nú fullkomið konukvöld
í sjónvarpinu.

Þar á að sýna
tískusýningu Victoria Secret
og Ungrú Ísland.

Af hverju ætti ég að pína mig
í gegnum slíkan hroðbjóð
og afhverju ætti það
að vera fullkomið kvöld fyrir mig?

Væri ekki nærri lagi
að kalla þetta fullkomið kallakvöld?

föstudagur, maí 15, 2009

Sinnisraunir

Ok,
sól úti, sól inni
ekki alveg viss um sól í sinni....
en það hlýtur að fara að koma að því,
ekki nema mánuður í sumarfrí!

mánudagur, maí 11, 2009

Vorraunir

Ég veit ekki með ykkur
en ég tel að það sé alveg kominn tími á sumar
og tilheyrandi sumarfrí.
Er ekki hægt að spóla hratt áfram bara?

föstudagur, maí 08, 2009

Djókraunir

Mér finnst alveg vibbalega fyndið
að ég skyldi hafa verið tekin í rassgatið
af Sölva og spjallinu hans
í fyrsta skipti sem ég horfði á þáttinn.

Ég er nefnilega ein af þeim
sem trúði því að þessi tilbúna fígúra þáttarins
væri einhver fávitagaur á kókaíni
og varð alveg massa reið.

Skrifaði meira að segja færslu um það.

En það er eins og hann (leikarinn) segir,
það er kannski ekki skrítið
vegna þess að fáránleikinn sem á undan var genginn
var bara úti á túni, jafnvel út úr kú.

Andri hélt fyrst að okkur (þjóðin) skorti
bara skilning á íróníu,
en það var bara ekki þannig
(believe you me - ég skil alveg íróníu)
Málið var bara
að ég var búin að sjá svo mikinn fáránleika
að ég trúði því að þetta væri bara einn af glæpamönnunum
sem rústuðu lífi Íslendinga,
eins óforskammaður og hann var.

Í dag finnst mér þetta hrikalega fyndið
og dáist að þeim félögum
fyrir að hafa haldið andliti
í gegnum allt bullið.

Heill sé ykkur heilladrengir!

Það er ekki hægt annað en að hlæja að þessu,
annars er bara hægt að fara og skjóta sig í hausinn -
með kindabyssu.

miðvikudagur, maí 06, 2009

Sundraunir

Ég verð að játa
að mér finnst ekkert æðislegt
að fara í sund.

Kenni ég þar m.a. um uppeldi
sem miðaði að því
að minna mig á líkamsvessa,
húð og hárflögur
og annað skemmtilegt
sem í laugunum flýtur,
en einnig er mér illa við klór
vegna þess að hann fer illa
með hár mitt og húð.

Svo kann ég nánast ekkert að synda,
heldur lummast þetta á bringunni
eins og gömlurnar - mínus hettu
og gleypi alltaf hálfa sundlaug
í hverri ferð.

Þó kemur fyrir að mig langar í pottinn
einkum vegna verkja og eymsla í skrokki,
en einnig til að leyfa sólinni
að skína aðeins á grátt inniandlitið
ásamt því að lagfæra nokkra þurrkubletti
sem komu illa undan vetri.

Samt er það nú svo
að þegar upp renna dagar eins og í dag
með sól í heiði og svo til engan vind
er ég alltaf gripin óundirbúin,
loðin eins og rotta
og í mánaðarlegu leiðindunum.

Ég held ég neyðist hreinlega
til að fara í ljós.

Slepp þá a.m.k. við klórlyktina
og þráhyggjuskrúbbið eftirá.

mánudagur, maí 04, 2009

Vetrarraunir

Mikið óskaplega er þetta búinn að vera langur vetur.
Mikið er ég farin að hlakka til sumarsins....
eða kemur ekki annars örugglega sumar?
Ég er nefnilega svo fljót að gleyma,
sem betur fer.